Mikil þátttaka í fyrstu kvennasögugöngunni á Akureyri

Í tilefni kvenréttindadagsins 19. júní var boðið upp á kvennasögugöngu um innbæinn á Akureyri.  Jafnréttisstofa , Minjasafnið á Akureyri og Zonta-klúbbarnir á Akureyri stóðu fyrir göngunni og þótti hún mjög fróðleg. Sigrún Björk Jakobsdóttir  ávarpaði göngugesti við upphaf göngunnar og síðan var haldið af stað inn innbæinn undir leiðsögn Elínar Antonsdóttur. 



Staldrað var við hús kvenna sem bjuggu og störfuðu í innbænum í kringum aldarmótin 1900 og óhætt að segja að ný tengsl hafi skapast við líf fólks í innbænum á þessum tíma.



Þátttaka í göngunni  var mjög góð og voru göngugestir 150 þegar mest var. 





Göngunni lauk við hús Zontaklúbbs Akureyrar þar sem Zontaklúbbarnir afhentu Aflinu eina milljón en Zontaklúbbarnir á Íslandi hafa í vetur safnað fé með sölu gullrósarnælunnar.  Heildar afrakstur söfnunarinnar var 8 milljónir sem komu í hlut Stígamóta, Aflsins á Akureyri og Sólstafa á Ísafirði. 



Valgerður Bjarnadóttir flutti ávarp um jafnréttismál í Zontahúsinu  á meðan göngugestir gæddu sér á kleinum og kaffi í kjölfar göngunnar.