- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Kvennasöguganga Jafnréttisstofu og samstarfsaðila á kvenréttindadaginn var mjög vel sótt í ár en 100 manns tóku þátt að þessu sinni. Gengið var í annað sinn um Oddeyrina og fræðst um líf og störf kvenna, en konur á eyrinni tóku virkan þátt í atvinnulífinu og sáu um ýmiskonar rekstur um aldarmótin 1900 og fram á miðja 20. öld. Guðfinna Hallgrímsdóttir og Hallgrímur Skaptason leiddu gönguna og vörpuðu ljósi á líf kvenna og ýmsar uppákomur, hefðir og venjur sem ríktu á eyrinni.
Gengið var frá Ráðhústorgi þar sem áður stóðu reisuleg hús sem hýstu hinar ýmsu verslanir og þjónustu en fimm hús við torgið urðu eldi að bráð árið 1906 í stærsta bruna á Íslandi. Á leið göngufólks var m.a. fjallað um fyrrum skáldkonur, lagahöfunda, ljósmyndara, verkakonur, hótelstýrur og vertshaldara og skólastarf í Kvennaskóla Eyjafjarðar. Hægt er að finna Kvennasögugönguna á prenti á heimasíðu Jafnréttisstofu undir flipanum: Útgefið efni.
Í kjölfar göngunnar var boðið upp á sýningu á myndinni Monika Z en varð aðsókn að myndinni slík að sumir gestir þurftu að njóta myndarinnar án þess að fá sæti í sýningarsal kvikmyndahússins.