- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa og félags- og tryggingamálaráðuneytið hafa gefið út barnabók í tengslum við þróunarverkefni um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum sem ætlað er að fræða ung börn um jafnréttismál. Þróunarsjóður námsgagna styrkti útgáfu bókarinnar sem er gefin út í tilefni af degi barnsins 24. maí. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, afhenti fyrstu eintök bókarinnar í leikskólanum Múlaborg og las kafla úr henni fyrir börnin.
Bókin heitir á frummálinu Den dag da Frederik var Frida / Den dag Rikke var Rasmus og var upphaflega gefin út af danska jafnréttisráðherranum til að efla jafnréttisfræðslu meðal ungra barna í Danmörku. Í tilefni af degi barnsins hefur bókin nú verið gefin út í íslenskri þýðingu og verður hún gefin til allra leikskóla og grunnskóla í landinu. Bókin heitir á íslensku Þegar Friðrik var Fríða / Þegar Rósa var Ragnar. Bókina þýddi Þórlaug Baldvinsdóttir, leikskólakennari á Lundarseli, ásamt starfsfólki skólans.
Höfundur bókarinnar, Louise Windfeldt, kom hingað til lands í tilefni af útkomu bókarinnar og heimsótti börnin í Múlaborg ásamt félags- og tryggingamálaráðherra. Louise var sérstakur gestur á námsstefnu sem haldin var í Salnum í Kópavogi í gær á vegum þróunarverkefnis um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum, þar sem kynnt voru verkefni sem nýst geta til jafnréttisstarfs í skólum.
Í bókinni um Friðrik og Rósu segir frá því þegar sögupersónurnar vakna einn morguninn og uppgötva sér til furðu að Friðrik er orðinn stelpa og Rósa strákur. Fylgst er með þeim í einn dag, bæði heima og í leikskólanum, og fá lesendur að kynnast því hvernig þau tvö upplifa væntingar og kröfur sem gerðar eru til þeirra út frá kynferði.
Lítið er til af íslensku fræðsluefni um jafnréttismál fyrir börn á leikskólaaldri og börn á fyrstu stigum grunnskóla og telja aðstandendur þróunarverkefnis um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum að útkoma þessarar bókar geti nýst vel í jafnréttisstarfi með börnum á þessum aldri. Nánar má lesa um þróunarverkefnið um jafnréttisfræðslu í skólum á heimasíðu þess, www.jafnrettiiskolum.is.