- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Ný skipan jafnréttismála hjá lögreglunni tók gildi í byrjun þessa mánaðar og samkvæmt nýrri jafnréttis- og framkvæmdaáætlun Ríkislögreglustjóra tilnefna lögreglustjórar um allt land jafnréttisfulltrúa síns embættis, auk þess sem skipuð hefur verið jafnréttisnefnd lögreglunnar á landsvísu. Þessir fulltrúar ásamt lögreglustjórum sitja í dag námskeið um jafnréttismál, þar sem starfsmenn Jafnréttisstofu sjá meðal annars um fræðsluna.Sólberg S. Bjarnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og nýskipaður jafnréttisfulltrúi lögreglunnar, er annar umsjónarmanna námskeiðsins, en hann hefur yfirumsjón með jafnréttismálum hjá öllum lögregluembættunum og er ætlað að safna upplýsingum um stöðu jafnréttismála innan lögreglunnar.
Jafnréttisnefnd er jafnréttisfulltrúa lögreglunnar til aðstoðar og ráðgjafar, en hana skipa sjö einstaklingar. Nefndin mun meðal annars starfrækja sérstakt jafnréttis- og áreitnisteymi, sem verður lögregluembættum og aðilum máls til ráðgjafar og aðstoðar. Þá hafa verið skipaðir fjórtán jafnréttisfulltrúar hjá lögregluembættunum um allt land.
Á námskeiðinu í dag fara sérfræðingar Jafnréttisstofu yfir jafnréttislögin og fjalla um jafnrétti, hlutverk jafnréttisfulltrúa og jafnréttisáætlanir. Þá ræðir verkefnastjóri frá Vinnueftirlitinu um kynferðislega áreitni og einelti á vinnustað. Loks eru fulltrúar lögreglunnar með erindi sem nefnist Jafnrétti innan lögreglu, hvar erum við, á hverju hefur brotið og hver er framtíðin. Námskeiðið fer fram í lögregluskólanum við Krókháls og stendur til kl. 16.40.
Jafnréttis- og framkvæmdaáætlun lögreglunnar er mjög metnaðarfull og hana má nálgast hér.