- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Sem hluti af aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks 2022-2025 hefur Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands birt niðurstöður rannsóknar á ofbeldi í nánum samböndum og í fjölskyldum hinsegin fólks á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja tíðni og birtingarmyndir ofbeldis, gefa innsýn í stöðu málaflokksins ásamt því að leggja til aðgerðir til úrbóta. Gögn voru fengin úr Íslensku æskulýðsrannsókninni, spurningakönnun sem send var á meðlimi Samtakanna ‘78 og spurningakönnun sem lögð var fyrir í Facebook hópnum Hinseginspjallið.
Greining á Íslensku æskulýðsrannsókninni sýndi að kynsegin ungmenni og þau sem skilgreina sig sem „annað kyn“ eru líklegri en drengir og stúlkur til að hafa orðið vitni að líkamlegu ofbeldi á heimili, að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi á heimili sínu og að hafa verið beitt líkamlegu ofbeldi í nánu sambandi. Pankynhneigðir og tvíkynhneigðir þátttakendur voru líklegri en ungmenni með aðrar kynhneigðir til að hafa orðið vitni að ofbeldi á heimili sínu, hafa verið beitt ofbeldi á heimili sínu og að hafa orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi. Gangkynhneigðir, eikynhneigðir og óvissir voru ólíklegri til að hafa upplifað líkamlegt ofbeldi á heimili eða í nánu sambandi.
Meirihluti þátttakenda frá Samtökunum ‘78 höfðu upplifað eitthvað form andlegs ofbeldis í fyrrverandi sambandi. Hátt hlutfall hafði upplifað andlegt ofbeldi af hendi foreldra en lægra hlutfall hafði upplifað andlegt ofbeldi frá núverandi maka eða annars fjölskyldumeðlims.
Niðurstöður leiða í ljós að flest þau sem höfðu orðið fyrir ofbeldi leituðu sér aðstoðar hjá vini, fjölskyldumeðlimi eða ættingja. Næstflest leituðu til sálfræðinga eða félagsráðgjafa en stór hópur leituðu sér ekki aðstoðar. Lágt hlutfall leitaði sér sértækrar aðstoðar sem boðið er upp á hjá Stígamótum, Samtökunum ‘78, Bjarkarhlíð eða sambærilegrar aðstoðar. Þetta styður við niðurstöður úr opnum spurningum til þátttakenda sem lagðar voru fyrir á Hinseginspjallinu, þar sem kom fram að skortur væri á viðeigandi faglegri aðstoð fyrir hinsegin fólk sem upplifað hefur ofbeldi.
Rannsóknin var unnin fyrir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið í samvinnu við Samtökin ‘78 og Ríkislögreglustjóra.
Rannsóknarskýrsluna má nálgast hér.