Opinn fundur um stöðu mannréttinda á Íslandi

Fjallað verður um undirbúning skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi á opnum fundi á vegum innanríkisráðuneytisins næstkomandi þriðjudag, 7. júní. Fundurinn fer fram í Iðnó í Reykjavík á milli klukkan 9 og 12, og er öllum opinn.

Vinnuhópur á vegum innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og utanríkisráðuneytis hefur að undanförnu unnið að skýrslu um stöðu mannréttindamála á Íslandi. Um er að ræða reglubundna athugun Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttinda í svokölluðu Universal Periodic Review (UPR) og er þetta í annað skiptið sem slík athugun fer fram hér á landi en sú fyrsta fór fram árið 2011.
Við skýrslugerðina leggur vinnuhópurinn mikla áherslu á að samráð sé haft við frjáls félagasamtök og almenning í þeirri vinnu sem fer fram í tengslum við verkefnið. Stefnt er að því að birta drög að skýrslunni á heimasíðu innanríkisráðuneytisins um miðjan júní. Gefst þá almenningi og öðrum tækifæri til þess að skila athugasemdum við drögin sem vinnuhópurinn mun svo vinna frekar úr.

Innanríkisráðuneytið efnir að þessu tilefni til opins fundar í Iðnó í Reykjavík þriðjudaginn 7. júní næstkomandi milli klukkan 9 og 12. Tilgangur fundarins er að kynna verkefnið og bjóða gestum að koma með ábendingar eða tillögur um það sem þeim finnst þurfa að leggja áherslu á í skýrslunni.

Ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, Ragnhildur Hjaltadóttir, mun flytja ávarp og Ragna Bjarnadóttir, verkefnastjóri vinnuhópsins, kynnir verkefnið. Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, kynnir skýrslu sem unnin var af þeirra hálfu um stöðu mannréttinda á Íslandi. Að því loknu verður boðið upp á umræðuhópa þar sem gestum gefst tækifæri til þess að ræða um stöðu mannréttinda á ýmsum sviðum og koma ábendingum til vinnuhópsins, svo sem um jafnrétti, ofbeldi, réttindi barna, málefni útlendinga, heilbrigðismál, réttindi eldra fólks og fatlaðs fólks.


Þeir sem hyggjast sækja fundinn eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig með því að senda tölvupóst á netfangið mannrettindi@irr.is eigi síðar en klukkan 12 á hádegi föstudaginn 3. júní næstkomandi.


Sjá nánar um UPR ferlið

Skýrsla Íslands vegna fyrstu úttektar frá 19. júlí 2011

Skýrsla Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttinda á Íslandi, dags. 16.desember 2011 (pdf)