- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Á ráðstefnunni Fjölbreytt forysta í atvinnulífinu sem haldin var af Jafnréttisstofu í maí sl. voru tvær íslenskar rannsóknir á stjórnarháttum, viðhorfum stjórnarmanna og vali á stjórnarmönnum á tímum kynjakvóta kynntar. Jafnréttisstofa hefur nú fengið í hendur skýrslur um niðurstöður rannsóknanna sem hægt er að lesa hér að neðan.
Rannsókn á vali í stjórnir á tímum kynjakvóta
Þröstur Olaf Sigurjónsson lektor við Háskólann í Reykjavík kynnti niðurstöður megindlegrar rannsóknar sem fólst annars vegar í viðtölum við 20 stjórnarmenn fjögurra íslenskra stjórna og hinsvegar spurningakönnun meðal 300 stjórna sem falla undir kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna m.a. að við val á nýjum stjórnarmönnum er lítill gaumur gefinn að stjórninni sem heild og tengsl hlutverks stjórnar við stefnu og stöðu fyrirtækis. Valið einkennist því oft af lítilli hugsun um stjórnina sem teymi sem sækir styrk sinn í fjölbreytta hæfileika og getu.
Þegar litið er til valferla sést að þau eru ekki formleg, flestir nýir stjórnarmenn eru valdir af hluthöfum, stjórn og stjórnarformanni. Greining á hvernig stjórn þarf að vera samansett út frá hlutverki hennar og verkefnum framundan er almennt ekki ríkjandi. Formleg greining á burðum, getu og hæfni einstaklinga til stjórnarsetu er ekki almenn venja.
Niðurstöður sýna einnig að hlutfall kvenna sem komu nýjar inn í stjórnir í kjölfar laga um kynjakvóta er fremur lágt (20%) en þessi hópur kvenna hefur 3 ára reynslu af stjórnarsetu eða minna. Aldur þessara kvenna er á bilinu 20 – 55 ár, en meðalaldur 42 ár og þær hafa flestar viðskiptafræðimenntun (41%) og er MBA gráða algengust. Nokkuð bar á lögfræðimenntuðum konum.
Þegar horft er til þess hvernig þessar konur eru valdar inn í stjórnir kemur í ljós að ráðningaskrifstofur eru lítið notaðar og það sama má segja þegar kemur að listum þar sem áhugasamar konur hafa sýnt fram vilja sinn til stjórnarsetu. Í flestum tilfellum voru konur valdar eftir tilvísun frá þriðja aðila, t.d. lífeyrissjóði. Konur voru einnig valdar vegna persónulegra tengsla við stjórnarmenn eða við formann stjórnar eða vegna tengsla við framkvæmdastjóra en einni á grundvelli eigin eignarhlutar í fyrirtækinu.
Niðurstöður sýna að viðhorf til laganna hefur batnað mikið, en þó minna hjá körlum og lang minnst hjá ungum körlum. Það er skiljanlegt í ljósi þeirrar staðreyndar að það eru helst ungir karlmenn sem verða neikvætt fyrir áhrifum laganna. Skoðun stjórnarmanna til þess hvort stjórnarhættir munu verða betri í kjölfar laganna er jákvæð. Stjórnarhættir á mörgum sviðum hafa þegar eða munu verða betri að þeirra mati. Það er hins vegar valferlið við val á nýjum stjórnarmönnum sem þarf að verða sterkara. Erindi Þrastar Olafs
Rannsókn á stöðu og viðhorfum æðstu stjórnenda til samræmingar fjölskyldu- og atvinnulífs og kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja - Konur og karlar í forystu atvinnulífs á Íslandi
Þorgerður Einarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands kynnti helstu niðurstöður könnunar Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og KPMG um stöðu og viðhorf æðstu stjórnenda til samræmingar fjölskyldu- og atvinnulífs og kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Rannsóknin er mikilvægur liður í því að safna gögnum um stöðu og þróun kynjajafnréttis á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. Spurningalistar voru sendir æðstu stjórnendum í 250 stærstu fyrirtækjum hérlendis. Sambærileg könnun hefur einnig verið lögð fyrir stjórnendur í Noregi, Möltu og í Bandaríkjunum. Niðurstöður íslensku rannsóknarinnar er að finna í skýrslu sem Jafnréttisstofa lét taka saman á vordögum 2015.
Skýrslan sýnir m.a. að rúmlega helmingur bæði kvenna og karla telja að of fáar konur sæki um stjórnunarstöður. Mikill kynjamunur er þó á svörum þátttakenda þegar kemur að ýmsum viðhorfum til kvenna í slíkum stöðum. Konur eru til dæmis líklegri en karlar til að segja að atvinnulífinu sé stjórnað af körlum sem beri ekki traust til kvenna, að ráðningar í stjórnunarstöður fari í gegnum óformleg tengslanet og að ráðning kvenna sé ekki sett í forgang. Karlar eru líklegri til að telja að konur ráði verr við álagið sem fylgir stjórnunarstöðum og að þær hafi síður tækifæri til starfsframa en karlar vegna ábyrgðar á fjölskyldu og börnum. Þá eru karlar einnig líklegri en konur til að álíta að ekki sé til nægur fjöldi hæfra kvenna til að manna stjórnunarstöður.
Mikill kynjamunur kom fram í viðhorfum til þess árangurs sem kynjajöfnuður í æðstu stjórnun hefði fyrir fyrirtækin. Þannig eru konur mun líklegri en karlar til að álíta að jafnt hlutfall kvenna og karla í æðstu stjórnendastöðum stuðli að betri fjárhagslegri afkomu fyrirtækisins og að betri áhættustjórnun. Konur eru auk þess töluvert líklegri til að segja kynjakvóta vera heppilega leið til þess að ná fram kynjajafnvægi í stjórnum fyrirtækja, í framkvæmdastjórnum fyrirtækja og í atvinnulífinu í heild sinni. Stærsti hópur beggja kynja er þó sammála því að kynjakvótarnir séu heppilegastir til þess að ná fram kynjajafnvægi í stjórnum fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Konur eru mun hlynntari slíkum kvótum en karlar.
Fleiri karlar en konur sitja í stjórnum fyrirtækja og þeir eru líklegri til að vera aðalmenn. Þriðjungur kvenna sagði að breytingar til batnaðar hefðu orðið á stjórnarstörfunum í kjölfar kynjakvótalaganna, en sex af hverjum tíu körlum sögðust ekki hafa merkt neinar breytingar. Svo til enginn sagði að stjórnarstörfin hefðu orðið erfiðari.
Meira en helmingur bæði karla og kvenna er sammála því að betri samþætting fjölskyldu- og atvinnulífs sé mikilvæg leið til að ná fram jafnara kynjahlutfalli í framkvæmdastjórnum fyrirtækja. Konur eru þó líklegri en karlar til að telja þennan þátt mikilvægan. Hér er átt við jafnari töku fæðingarorlofs milli foreldra, jafnri skiptingu ábyrgðar á börnum og fjölskyldu og betri tækifæri til þess að snúa aftur til ábyrgðarstarfa eftir að börnin stækka.
Einungis rúmlega helmingur kvenna en nokkuð færri karlar segja mögulegt að samræma starf sitt höfuð ábyrgð á fjölskyldu og börnum. Margir svarendur segjast koma of þreyttir heim úr vinnu til að geta sinnt þeim verkum sem þarf að sinna. Konur líklegri til að svara á þann veg en karlar. Minni líkur eru á svarendur segi að fjölskyldumál bitni á vinnunni en öfugt. Erindi Þorgerðar
Tveir frummælendur á ráðstefnunni komu langt að þær Dr. Siri Terjesen sem kom frá Bandaríkjunum og Dr. Sonja Robnik frá Slóveníu
Dr. Siri Terjesen frá Indiana University og Lundarháskóla ræddi um fjölbreytileika í stjórnum og stjórnun fyrirtækja í alþjóðlegu samhengi en hún benti á að kvótar af ýmsu tagi væru í gangi í ýmsum löndum en 12 lönd ásamt Québec og Grænlandi hafa nú lög fest kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja, 15 lönd hafa tekið upp svo nefnda „mjúka kvóta“ (soft quotas) sem eru í raun tilmæli en umræða um innleiðingu kynjakvóta í stjórnum fer nú fram víða um heim. Siri hefur tekið saman upplýsingar um forsendur þess að kvótar eru lögbundnir og kemst að því að lönd þar sem jafnréttislöggjöfin er sterk , þar sem velferðarmál eru virt og þar sem miðju- og vinstri stjórn er við völd því líklegra er að kvótar séu lögbundnir. Erindi Dr. Siri Terjesen
Dr. Sonja Robnik, sérfræðingur í jafnréttismálum hjá Ráðuneyti félags-, atvinnu- og jafnréttismála í Slóveníu kynnti nýlegar niðurstöður rannsókna á vali í stjórnir og reynslu kven- og karlstjórnenda í atvinulífinu í Slóveníu. Niðurstöður sýndu m.a. að konur eiga mun erfiðar með að komast í stjórnunarstöður og í stjórnir fyrirtækja en karlar. Val í stjórnir fyrirtækja er mjög ógegnsætt og pólitískan og almennan þrýsting vantar til að styðja konur til áhrifa í landinu. Í Slóveníu er nú rætt um lögleiðingu kynjakvóta og mögulega er frétta að vænta af þeim umræðum á næstu vikum og mánuðum. Erindi Dr. Sonju Robnik
Á ráðstefnunni ræddu Leifur Geir Hafsteinsson, aðstoðar framkvæmdastjóri Hagvangs, Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjörís ehf. , Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 og Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins og ráðstefnustjóri þær niðurstöður sem kynntar voru af ofangreindum fræðimönnum. Auk þess ræddu þau um mögulegar leiðir til að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum í fyrir tækjum. Guðrún sagði frá því að stjórn Kjöríss hafi vantað karla í stjórnina þegar kvótalöggjöfin kom til og það hafi verið af hinu góða. Sævar Freyr og Magnús Geir ræddu þær leiðir sem þeirra fyrirtæki hafa farið til að auka fjölbreytileika í stjórnunarstöðum og Leifur Geir ræddi ákveðnar leiðir sem mögulegt er að fara til að auka gegnsæi og fagmennsku við val í stjórnir en ráðningastofur hafa mjög lítið komið að vali í stjórnir hingað til.
Lokaerindi ráðstefnunnar var í höndum mæðgnanna Rakelar Sölvadóttur, stofnanda og framkvæmdastjóra Skema/ReKode Iceland & Ólínu Helgu Sverrisdóttur en hún er 14 ára frumkvöðull sem hefur stofnað sitt eigið fyrirtæki með það að markmiði að efla stúlkur þegar kemur að tölvuþekkingu. Í erindinu sem var tvískipt sögðu þær frá reynslu sinni á frambrautinni og hvöttu ráðstefnugesti til að stuðla að valdeflingu stúlkna.
Lokaliður í dagskrá ráðstefnunnar fólst í vinnustund þar sem stjórnendur, stjórnarfólk, fræðimenn , sérfræðingar og leikmenn ræddu mögulegar leiðir til að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum í íslensku atvinnulífi en konur eru einungis 21.6% framkvæmdastjóra í dag.
Vinnulotan hlaut góðar undirtektir og ýmsar hugmyndir settar fram:
Fyrirtæki noti ráðningamódel sem mismunar ekki kynjum
Fyrirtæki nýti sér ráðningaskrifstofur
Fyrirtæki veki athygli á mikilvægi fjölbreyttrar forystu og verði þannig ákveðin fyrirmynd
Viðskiptadeildir háskólanna bjóði upp á nám í kynjafræði
Konur komi sér upp sterku tengslaneti
Fyrirtæki stuðli að breytingu á vinnumenningu og bjóði upp á fundi á vinnutíma
Konur temji sér að vera áberandi á vinnustaðnum og mæti á viðburði eftir vinnu
Fyrirtæki leggi meiri áherslu á samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs
Fyrirtæki bjóði upp á Mentor- dag til að tengja eldri og reyndari konur við yngri konur
Skýrsla um val í stjórnir á tímum kynjakvóta
Skýrsla um konur og karla í forystu atvinnulífs á Íslandi
Myndir frá ráðstefnunni