Rakarastofuráðstefna Íslands og Súrínam


Á fjórða hundrað tóku þátt í jafnréttisráðstefnu sem Ísland og Súrínam stóðu að í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í vikunni. Hugmyndin að baki Rakarastofuráðstefnunni er að virkja karla í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og voru ráðamenn og baráttufólk fyrir kynjajafnrétti fengnir til að velta upp hugmyndum um hvernig ætti ná betri árangri.
Ráðstefnan var fyrst kynnt af fastanefnd Íslands hjá sameinuðu þjóðunum í september á síðasta ári. Þá fékk hún nokkra athygli vegna markmiða um að boða karla sérstaklega til þátttöku. Gagnrýnendur töldu að með því væri enn og aftur verið að útiloka konur frá þátttöku um eigin réttindamál. Segja má að íslensku utanríkisþjónustunni og skipuleggjendum ráðstefnunnar hafi tekist vel til við að leiðrétta misskilning um slíkan ásetning. Þannig sagðist sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Samantha Power, vera afar ánægð að taka þátt í ráðstefnunni og minnti á að Sameinuðu þjóðirnar hefðu sett sér markmið um að jafna hlut kynjanna fyrir árið 2030.

Í upphafi ráðstefnunnar var ávarp frá Vigdísi Finnbogadóttur var spilað. Frú Vigdís hefur um árabil verði talsmaður aukinnar þátttöku karla í jafnréttismálum. Félagsfræðingurinn prófessor Michael Kimmel, stofnandi og ritstjóri tímaritsins Men and Masculinities og höfundur fjölda bóka á sviðum karla- og karlmennskurannsókna, hélt síðan erindi og fjallaði um hlutverk karla í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi. Kimmel hefur verið afar vinsæll fyrirlesari síðari ár vegna rannsókna á tengslum hatursorðræðu og kvenfyrirlitningar.

Todd Minerson, framkvæmdastjóri White Ribbon Campaign sagði frá reynslu sinni af þátttöku karla og benti á að „það ríkir ótti um að karlar vilji ekki tala um kynjajafnrétti með og við konur“. Þessar áhyggjur taldi hann óþarfar. Reynsla hans af störfum í málaflokknum sýnir aðra mynd – þar sem karlar vilja gjarnan taka þátt og bera ábyrgð. Joni van de Sand, frá í samtökunum MenEngage sagði frá því að konur hefðu alla tíð verið áberandi í baráttu fyrir auknu jafnrétti. En þegar kemur að ákvarðanatöku og stefnumótun væru karlar í meirihluta þeirra sem taka ákvarðanir. Hún sagði þess vegna afar mikilvægt að karlar að veiti konum liðsinni í baráttunni.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra,  lagði áherslu á að Rakarastofuráðstefnan væri framlag Íslands og Súrínam til að auka umræðu um kynjajafnrétti og að virkja karlmenn í baráttunni fyrir því. Gunnar Bragði sagði ennfremur: „Það hefur tekist að vekja athygli á þessu máli sem er afar ánægjulegt. En það er ekki nóg. Við verðum að halda baráttunni áfram, vonandi hleypir þessi ráðstefna krafti í hana og verður okkur og öðrum hvatning.“