- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Konur eru fámennar í sjómannastétt, en þær ná því sjaldnast að verða fleiri en 10% starfandi sjómanna samkvæmt erlendum rannsóknum. Þetta lága hlutfall má rekja til menningarbundinna þátta, eins og hefðbundinnar skiptingu starfa í karla- og kvennastörf, og takmarkaðs vilja fólks til að haga sér í ósamræmi við viðteknar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika.
Með þessari kynbundnu hugmyndafræði er ýtt undir þá trú að sjómennska sé ekki hentugur starfsvettvangur fyrir konur. Aðrir þættir, svo sem ábyrgð kvenna á heimili og börnum, koma þó einnig í veg fyrir þátttöku þeirra í sjómennsku, sem og minnkandi framboð á störfum á sjó.
Þetta er niðurstaða rannsóknar sem Helga Katrín Tryggvadóttir, nemi í mannfræði við Háskóla Íslands vann fyrir samgönguráðuneytið, en verkefnið er hluti af framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Markmið verkefnisins var að kanna fjölda þeirra kvenna sem sækja sjóinn á Íslandi, starfsaðstæður þeirra, upplifun þeirra af starfinu og viðhorfi samfélagsins til þess.
Konurnar sem rætt var við í rannsókninni létu vel af því að vinna á sjó og engin þeirra áleit sig hafa liðið fyrir það að vera kona í því karlastarfi sem sjómennskan er álitin vera. Hversu erfitt konum reynist að stunda sjómennsku með börn fer mikið eftir því hversu mikið maki og nánasta fjölskylda geta hlaupið undir bagga. Almennt séð fannst konunum fátt koma í veg fyrir að konur gætu ekki stundað sjóinn í meira mæli.
Nánar má lesa um rannsóknina hér.