Ríkisstjórn samþykkir þriggja ára áætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð

Fjármálaráðherra lagði fram og kynnti á ríkisstjórnarfundi þann 27. apríl þriggja ára áætlun um áframhaldandi innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar. Áætlunin er unnin af verkefnisstjórn í kynjaðri hagstjórn sem skipuð var af fjármálaráðherra í apríl 2009.
Tillögurnar í áætluninni eru í samræmi við samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um að kynjuð hagstjórn skuli höfð að leiðarljósi við fjárlagagerð og efnahagsstjórn. Markmiðið er að gera kynjaáhrif fjárlaga sýnileg í þeim tilgangi að hægt sé að bregðast við og endurmóta stefnur, útgjöld og tekjuöflun í samræmi við jafnréttismarkmið.

Hér má lesa áætlunina og þar með tillögur verkefnisstjórnarinnar um hvernig standa beri að innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar á næstu þremur árum.

Þriggja ára áætlun. Innleiðing kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar. Tillögur verkefnisstjórnar