Saman um jafnrétti í 40 ár

Þann 26. ágúst næstkomandi býður Eygló Harðardóttir, félags- húsnæðis- og samstarfsráðherra Norðurlanda ásamt Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar til ráðstefnu í Hörpu þar sem haldið verður uppá fjörtíu ára afmæli samstarfs Norðurlandanna á sviði Jafnréttismála. Ráðstefnan er einn af aðalviðburðum á formennskuári Íslands í Norræna ráðherranefndinni árið 2014.


Fyrirlesarar munu gefa yfirlit um þróun málaflokksins síðastliðna áratugi og ræða tengsl jafnréttismála við þróun lýðræðis og velferðarsamfélags á Norðurlöndunum. Ennfremur er það markmið ráðstefnunnar að skapa vettvang umræðu um framtíð samvinnu á sviði jafnréttismála.

Frú Vigdís Finnbogadóttir flytur hátíðarávarp og í kjölfarið heldur Margot Wallström, stjórnarformaður Háskólans í Lundi, lykilfyrirlestur um ábyrgð og skyldur Norðurlandanna í alþjóðasamskiptum. Þá mun Gertrud Åström, úr framkvæmdastjórn Nordisk Forum, fjalla um nýjar leiðir til að tryggja réttindi kvenna.

Á ráðstefnunni verða haldnar tvær málstofur, annarsvegar um karla og jafnrétti og hinsvegar um kyn og lýðræði. Undir lok ráðstefnunnar verða pallborðsumræður norrænna sérfræðinga um jafnréttismál og einnig sérstakar umræður í samstarfi við Norðurlandaráð æskunnar.

Nánar um dagskrá og skráningu