- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, og Unnur Dís Skaptadóttir, fyrir hönd Háskóla Íslands og verkefnisins Hreyfanleiki og þverþjóðleiki á Íslandi, undirrituðu í dag samning milli velferðarráðuneytisins og Háskóla Íslands um gerð greiningar á stöðu kvenna af erlendum uppruna. Markmið greiningarinnar er meðal annars að kortleggja þá þekkingu sem liggur fyrir um stöðu kvenna af erlendum uppruna og afla eigindlegra gagna um helstu hindranir sem konur af erlendum uppruna upplifa í íslensku samfélagi. Samningurinn er hluti af viðbrögðum stjórnvalda vegna frásagna kvenna af erlendum uppruna undir formerkjum #metoo. Konur af erlendum uppruna geta verið í enn viðkvæmari stöðu heldur en íslenskar konur þar sem þær þekkja ekki alltaf innviði samfélagsins, réttindi sín né þau úrræði sem eru til staðar. Mikilvægt er fyrir stjórnvöld að fá greiningu á hverjar eru helstu hindranirnar sem konur af erlendum uppruna mæta til þess að unnt sé að ýta úr vör aðgerðum til þess að tryggja að erlendar konur njóti jafnra réttinda hér á landi og aðrar konur.
Um er ræða annað verkefnið sem velferðarráðuneytið styrkir sérstaklega vegna frásagna kvenna af erlendum uppruna undir formerkjum #metoo en nú þegar hefur verið gert samkomulag við Söguhring kvenna um að bjóða upp á aukna fræðslu um innviði íslensks samfélags og veita upplýsingar um þau úrræði sem eru fyrir hendi til að hjálpa þeim konum sem hafa verið beittar ofbeldi eða orðið fyrir kynferðislegri áreitni.
Fréttin birtist fyrst á vef velferðarráðuneytisins.