Samráðshópur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins sem innanríkisráðherra skipaði í mars 2016 hefur skilað ráðherra fyrstu tillögum um aðgerðir á þessu sviði. Hópnum var falið að kortleggja stöðu mála í dag, skilgreina styrkleika og tækifæri og leggja fram aðgerðaáætlun sem miði meðal annars að því að tryggja réttaröryggi, tryggja vandaða málsmeðferð og auka traust til réttarvörslukerfisins. Gert er ráð fyrir að samráðshópurinn starfi áfram að verkefninu og að fullmótuð aðgerðaráætlun verði tilbúin í haust.
Í skýrslu samráðshópsins er að finna tölfræði frá lögreglu yfir fjölda kynferðisbrota, framvindu kærumála, hvers eðlis brot voru og um málmeðferðarhraða á árunum 2011-2015. Þá eru settar fram tillögur um aðgerðir á sex sviðum og þær flokkaðar í eftirfarandi kafla:
- Rannsóknir
- Ákæruvald
- Dómstólar
- Brotaþolar
- Sakborningar
- Forvarnir og fræðsla
Tillögur eru annars vegar um aðgerðir sem geta komið strax til framkvæmda og hins vegar aðgerðir sem kæmu til framkvæmda allt til ársins 2020. Lögð var áhersla á virkt samráð hópsins við aðila innan réttarvörslukerfisins, fræðasamfélagsins, grasrótar og annarra sem kynnu að hafa skoðun á meðferð kynferðisbrota. Því samráði er ekki lokið og mun formaður hópsins halda fundi með þeim fagaðilum, hópum og einstaklingum sem hagsmuni hafa að gæta í því skyni að kynna þessi fyrstu drög um aðgerðir sem snúa að málaflokknum, fá umræðu og tryggja þannig að sátt sé um lokaafurð hópsins.
Í samráðshópnum sitja:
- María Rut Kristinsdóttir, sérfræðingur og jafnframt formaður, tilnefnd af innanríkisráðherra,
- Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildarinnar, tilnefndur af embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu,
- Brynjólfur Eyvindsson, héraðsdómslögmaður, tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands,
- Daði Kristjánsson, saksóknari, tilnefndur af Ríkissaksóknara,
- Eyrún B. Jónsdóttir, verkefnisstjóri Neyðarmóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss, tilnefnd af Neyðarmóttökunni,
- Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, tilnefnd af embætti héraðssaksóknara,
- Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri, tilnefnd af embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu,
- Sigríður Hjaltested, héraðsdómari tilnefnd af dómstólaráði.
Með samráðshópnum hafa starfað Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður ráðherra, Hinrika Sandra Ingimundardóttir, lögfræðingur á skrifstofu almannaöryggis, Ragna Bjarnadóttir, lögfræðingur á skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga og Sunna Diðriksdóttir, ritari á skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga.