Samstarf milli Íslendinga og Kínverja á sviði jafnréttismála

Þann 29. maí sl. undirrituðu Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri í velferðarráðuneytinu og Zhen Yan varaforseti samtakanna All-China Women´s Federation viljayfirlýsingu um samstarf sem snýr að auknu jafnrétti kynjanna.Fulltrúar samtakanna heimsóttu velferðarráðuneytið og áttu þar fund með Önnu Lilju, Kristínu Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýru Jafnréttisstofu, Þórhildi Þorleifsdóttur, formanni Jafnréttisráðs og fulltrúum velferðarráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins sem vinna að verkefnum á sviði jafnréttismála. Að fundi loknum hitti Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kínversku sendinefndina og hann og Zhen Yan, varaforseti All-China Women´s Federation, skiptust á gjöfum.


Undirritun viljayfirlýsingarinnar kemur í framhaldi af viðræðum sem áttu sér stað í opinberri heimsókn Wen Jiabao forsætisráðherra Kína til Íslands í síðasta mánuði. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ræddi á fundi þeirra um stöðu mannréttindamála í Kína, samfélagsleg réttindi og alþjóðlegar skuldbindingar. Við sama tækifæri kynnti hún kínverska forsætisráðherranum hugmyndir um aukið samstarf Íslands og Kína á sviði jafnréttismála og ákváðu þau að fylgja þeim hugmyndum eftir með frekara samráði á næstu mánuðum.


Yfirlýsingin fjallar einkum um upplýsingagjöf og vilja þjóðanna til að deila með sér þekkingu og reynslu sem snúa að jafnréttismálum. Lýst er áhuga á að styrkja samskipti íslenskra og kínverskra kvenna sem gegna veigamiklum stöðum eða starfa í ólíkum fagstéttum á sem flestum sviðum.