Sjávarútvegurinn hefur allt að vinna með auknu kynjajafnrétti

Á sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin var í Reykjavík 19.-20 nóvember var málstofa undir yfirskriftinni „Af hverju eru ekki fleiri konur í stjórnunarstöðum í sjávarútvegi?“. Frummælendur voru dr. Þóranna Jónsdóttir sviðsstjóri viðskiptasviðs HR, Kristín Ástgeirsdóttir Jafnréttisstofu, Guðrún Anna Finnbogadóttir sjávarútvegsfræðingur, Marie Christine Monfort sem unnið hefur um árabil í sjávarútvegi og Hilmar Hjaltason frá Capacent. Þetta er í fyrsta sinn sem kynjajafnrétti er rætt á þessum viðamikla vettvangi sjávarútvegsins. Þóranna ræddi ávinninginn af því að fjölga konum meðal stjórnenda og vísaði þar til fjölda rannsókna. Hún benti m.a. á að kynskiptur vinnumarkaður væri hindrun sem þyrfti að ryðja úr vegi. Glærur Þórönnu

Kristín fór yfir skyldur fyrirtækja samkvæmt jafnréttislögum og lögunum um 40% kynjakvóta í hluta- og einkahlutafélögum og benti á leiðir til útbóta, svo sem að tefla fram góðum fyrirmyndum, taka upp námsstyrki og bjóða stúlkum upp á starfsþjálfun í fyrirtækjum sem tengjast sjávarútvegi. Glærur Kristínar

Guðrún Anna greindi frá þeirri reynslu að koma sem kona inn í sjávarútveginn þar sem hún passaði ekki alltaf inn í hefðirnar. Glærur Guðrúnar Önnu
Marie Christine  fór yfir stöðu mála í heiminum en alls staðar er sama sagan, konur eru nánast ósýnilegar í sjávarútvegi þó að þær hafi gegnt lykilhlutverki um aldir við hvers kyns fiskverkun. Glærur Marie
  
Að lokum ræddi Hilmar um breytta tíma og hvað það væri mikill munur á þeirri kynslóð (68 kynslóðin) sem er á leið út af vinnumarkaði og þeirri tæknivæddu kynslóð sem er á leið út á vinnumarkaðinn. Atvinnugrein eins og sjávarútvegurinn verður að átta sig á nýjum tímum og skoða upp á hvað hann er að bjóða. Glærur Hilmars

Allir fyrirlesarar lögðu áherslu á hve mikill ávinningur það væri fyrir sjávarútveginn að sækja í þann mikla mannauð sem er að finna meðal íslenskra kvenna sem eru almennt orðnar mun betur menntaðar en karlar hér á landi. Sjávarútvegurinn hefur allt að vinna með því að stefna markvisst að jafnrétti kynjanna.