- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Komin er út skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna. Í skýrslunni er að finna greiningu á skiptingu kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum á starfsárinu 2014 auk þess sem farið er yfir þróun síðustu ára. Árið 2008 var leiddur í lög kynjakvóti í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og hefur Jafnréttisstofa eftirlit með framkvæmd hans.
Samkvæmt 15. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 á hlutfall kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum að vera sem jafnast og ekki minna en 40% þegar fulltrúar eru fleiri en þrír. Tilnefningaraðili á að tilnefna karl og konu, en heimilt er að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
• Hlutfall kynjanna í öllum nefndum, allra ráðuneyta, árið 2014: 46% konur og 54% karlar
• Hlutfall kynjanna í nýjum nefndum sem skipaðar voru á starfsárinu 2014: 48% konur og 52% karlar
• Þegar kynjakvótinn var leiddur í lög 2008 voru 43% nefnda í samræmi við kynjakvótann. Árið 2014 voru 76% starfandi nefnda skipaðar í samræmi við 15. greinina.
Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd jafnréttislaga og fær upplýsingar um skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna í árlegri greinagerð frá jafnréttisfulltrúum ráðuneytanna. Þegar Jafnréttisstofa hefur fengið gögnin afhent eru þau greind og meðaltal reiknað út og breytingar á milli ára skoðaðar. Eftir lagabreytinguna 2008 er hver nefnd fyrir sig skoðuð og eru ráðuneytin beðin um að gera grein fyrir ástæðum þess ef nefndir eru ekki skipaðar í samræmi við 15. gr. jafnréttislaga. Jafnréttisstofa leggur svo mat á hvort undanþáguheimildin í 2. mgr., sbr. 3. mgr. 15. gr. eigi við auk þess sem athugað er hvort ráðuneytin fari eftir þeirri vinnureglu um tilnefningar í nefndir, ráð og stjórnir sem ráð er gert fyrir í 15. gr. Í ljósi umræðu síðustu daga áréttar Jafnréttisstofa að meginreglan í 1. mgr. 15. gr. er alveg skýr og að undanþáguheimildina í 2. mgr., sbr. 3. mgr. beri að skýra þröngt.
Skýrslu Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir 2014 (647 KB)