- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Árleg skýrsla OECD um menntatölfræði, Education at a Glance 2018 er komin út. Þar kemur m.a. fram að munurinn eykst á fjölda ungra kvenna og karla sem eru með háskólapróf. 57 prósent íslenskra kvenna á aldrinum 25 til 34 ára hafa lokið háskólanámi, en aðeins 39 prósent karla.
Staða karlmanna á Íslandi út frá menntun er verri en víðast hvar í Evrópu, samkvæmt skýrslunni. Kynjamunur á Íslandi er konum í hag í menntakerfinu, en körlum í hag í atvinnulífinu, samkvæmt meginályktunum skýrslunnar, Education at a Glance.
Meðal þess sem fram kemur um íslenskt menntakerfi er:
• Á Íslandi eru fleiri karlar án framhaldsskólamenntunar á aldrinum 25-34 ára en í flestum öðrum vestrænum ríkjum.
• Háskólamenntuðum hefur fjölgað um 14 prósentustig á tíu árum frá 2007 og stendur Ísland jafnfætis Norðurlöndum í fjölda háskólamenntaðra.
• Hlutfall fólks sem er hvorki í vinnu, né í skóla eða starfsþjálfun er lágt í öllum aldurshópum og stendur Ísland að því leyti best að vígi í samanburði við önnur OECD lönd.
• Á árabilinu frá 2010 til 2015 var aukningin á útgjöldum á hvern nemanda til grunnskóla og framhaldsskóla um 14 prósentustig og á háskólastigi var aukningin um 27 prósentustig þegar tekið er mið af fjölda nemenda. Á Íslandi var aukningin talsvert meiri en á Norðurlöndunum og flestum löndum OECD.
Nánar má lesa um efni skýrslunnar í frétt á vef menntamálaráðuneytsins.