Starfshópur um þjónustu vegna ofbeldis óskar eftir tillögum og ábendingum

Mynd eftir Galina N af Unsplash
Mynd eftir Galina N af Unsplash

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða laga- og reglugerðarumhverfi þjónustu vegna ofbeldis og koma með tillögur um hvernig best megi tryggja þá þjónustu sem standa þarf bæði þolendum og gerendum ofbeldis til boða, einkum með tillit til IV. kafla Istanbúl-samningsins (samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi). Mikil áhersla er lögð á samráð við aðila sem starfa og veita þjónustu á þessu sviði.

Starfshópurinn vill því gefa þeim aðilum sem veita þjónustu til þolenda og gerenda ofbeldis eða koma að málaflokknum með einhverjum hætti, tækifæri á að senda inn ábendingar eða tillögur á netfangið ofbeldi@frn.is um hvernig best megi tryggja þolendum og gerendum ofbeldis framangreinda þjónustu.

Starfshópinn skipa fulltrúar frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Jafnréttisstofu, Ríkislögreglustjóra, Ríkissaksóknara, Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Istanbúlsamningurinn var fullgiltur á Íslandi í apríl 2018. Í IV. kafla samningsins er fjallað um skyldur samningsaðila til að tryggja vernd og stuðning gegn ofbeldi, með lagasetningu eða öðrum hætti þ.m.t. lögfræði- og sálfræðiráðgjöf, fjárhagsaðstoð, húsnæði, fræðslu, þjálfun og aðstoð við atvinnuleit. Jafnframt skal tryggja að þolendur hafi aðgang að viðeigandi heilsugæslu og félagsþjónustu og að samvinna allra viðkomandi stofnana, þ.m.t. dómskerfis, saksóknara og annarra ákærenda, löggæslustofnana, stað- og svæðisbundinna stjórnvalda, og frjálsra félagasamtaka sé tryggð til að vernda og styðja þolendur og vitni að öllum birtingarmyndum ofbeldis sem falla undir gildissvið samningsins.

Starfshópnum er falið að skoða með hvaða hætti best megi tryggja þá þjónustu sem standa þarf bæði þolendum og gerendum ofbeldis til boða. Í því felst m.a. að skoða laga og reglugerða umhverfi en hvorki eru til lög né reglugerðir sem tryggja vernd og stuðning við þolendur, né úrræði fyrir gerendur til að koma í veg fyrir ofbeldi í samræmi við ákvæði Istanbúlsamningsins.

Starfshópnum er falið að skila tillögum til ráðherra fyrir 1. mars 2023.

Unnið upp úr frétt á vef Stjórnarráðsins