- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa hefur gefið út dagatal í tilefni 30 ára afmælis samnings um afnám allrar mismunar gagnvart konum eða Kvennasáttmálans sem var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 18.desember 1979.Samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum var fullgiltur af Íslands hálfu þann 18. júlí 1985. Kvennasamningurinn er viðbót við aðra samninga Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, tilkominn vegna þess að enn og þrátt fyrir þá samninga eru konur beittar misrétti.
Við skýringu á íslenskum lögum ber að hafa hliðsjón af alþjóðlegum samningum sem þessum og íslensk lög verða að standast þær kröfur sem slíkir sáttmálar gera.
Samkvæmt Kvennasáttmálanum telst það ekki mismunun grípi stjórnvöld til sérstakra bráðabirgðaráðstafana sem miða að því að flýta fyrir raunverulegu jafnrétti kynjanna. Það myndi því styrkja réttarstöðu kvenna ef sáttmálinn yrði lögfestur hérlendis.
Nú eru 185 ríki aðilar að samningnum og því skuldbundin að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að framfylgja fullkomlega réttindum sáttmálans.
Aðildarríkin verða reglulega að leggja fram skýrslur fyrir nefnd sem hefur eftirlit með því að ákvæðum Kvennasáttmálans sé framfylgt.
Sendinefnd Íslands kom fyrir nefndina í júlí 2008 en í kjölfarið lýsir nefndin meðal annars ánægju sinni með nýlegar lagabreytingar á Íslandi sem eru til þess fallnar að styrkja stöðu kvenna almennt og með breytingar á almennum hegningarlögum er varða skipulagða glæpastarfsemi og mansal, heimilisofbeldi og kynferðisbrot. Einnig er háu hlutfalli kvenna í sveitarstjórnum og á Alþingi fagnað og ánægja er með ýmis smærri og sértækari verkefni sem stuðla að jafnrétti kynjanna.
Helstu áhyggjuefni og tilmæli snúa sérstaklega að ofbeldi gagnvart konum. Þar lýsir nefndin áhyggjum sínum af vægum refsingum í kynferðisbrotamálum og hvetur íslensk stjórnvöld til að tryggja heildstæðari úrræði í þeim efnum. Skortur sé á upplýsingum um mansal og lögleiðing vændis og tilvist ólöglegra nektarklúbba geti stuðlað að aukningu á mansali og misnotkun í tengslum við vændi. Þá sé ekki til að dreifa fórnalamba- og vitnavernd fyrir fórnarlömb mansals, þótt fjölmörg lagafrumvörp þess efnis hafi verið lögð fram á Alþingi.
Nefndin lýsir einnig áhyggjum sínum af lágu hlutfalli kvenna í stjórnunarstöðum, sérstaklega hjá hinu opinbera og í dómskerfinu og af stöðugum umtalsverðum launamun kynjanna, sem er að jafnaði um 16%.
Að lokum bendir nefndin á að verulega skorti á að unnið sé eftir fjórðu grein samningsins um afnám mismununar gagnvart konum, þar sem kveðið er á um að íslenska ríkið eigi að flýta fyrir, jafnvel með sérstökum bráðabirgðaráðstöfunum, að raunverulegt jafnrétti karla og kvenna náist.
Dagatalið má finna hér en því verður dreift í alla skóla landsins, til stofnana og skrifstofa sveitarfélaga.