Sveitarfélög minnt á ábyrgð og hlutverk þeirra til að brúa umönnunarbilið

Mynd eftir Phil Hearing af Unsplash
Mynd eftir Phil Hearing af Unsplash

Jafnréttisstofa hefur sent sveitarfélögunum bréf þar sem þau eru minnt á ábyrgð þeirra og hlutverk til að brúa bilið sem myndast þegar foreldrar hafa fullnýtt fæðingarorlofsrétt sinn og þangað til barn fær dvöl á leikskóla.

Foreldrar hafa í langan tíma lýst áhyggjum af erfiðleikunum sem felast í því að brúa umrætt bil og Jafnréttisstofa tekur undir þær áhyggjur.

Sveitarfélög hafa ríkar skyldur samkvæmt jafnréttislögum og þeim ber að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og annara mismununarþátta við ráðstöfun fjármagns og í þjónustu við íbúana með því að vinna að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun, áætlanagerð og ákvarðanatöku. Sveitarfélögin eru í bréfinu brýnd til þess að taka skyldur sínar alvarlega. Mikilvægt er að greina stöðuna og gera viðunandi úrbætur til þess að barnafólki sé gert kleift að skipuleggja framtíðina án þess að búa við þá óvissu og streitu sem skapast hefur vegna kerfislægs vanda. Vitað er að vandinn er margþættur og tilkominn af ýmsum ástæðum en sveitarfélögin þurfa að vinna úr stöðunni eins og hún er á hverjum tíma og sníða aðgerðir sínar og þjónustu samkvæmt því.

Núverandi aðstæður barnafólks til þess að hafa jafna möguleika til að brúa bilið eru víðast hvar óviðundandi og afleiðingarnar eru miklar til skemmri og lengri tíma. Meðal þeirra eru launatap og tekjumissir sem reynslan og umræðan sýnir að bitnar í meiri mæli á mæðrum en feðrum. Munur á ævitekjum kvenna og karla eykst því meðan ráðstafanir ættu að vinna markvisst gegn þeirri þróun. Auk þess skapar ástandið viðvarandi streitu innan fjölskyldna þar sem mikil óvissa ríkir frá degi til dags, fyrirsjáanleiki er lítill og mikill tími og orka fer í að mæta áskorunum hvers dags eftir því sem efni og aðstæður leyfa, þ.e. án þess að jafnræðis sé gætt.

Staðan er misjöfn eftir sveitarfélögum en Jafnréttisstofa hvetur þau öll til að vera vakandi gagnvart stöðu jafnréttismála á hverjum tíma og gæta sérstaklega að mögulegum afleiðingum. Það kann að verða erfitt og dýrt fyrir einstaklinga og samfélagið allt að vinda ofan af neikvæðri þróun.