Sýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla

Á morgun, laugardaginn 28. mars, verður opnuð listasýningin MENN í Hafnarborg. Sýningin beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa högum þeirra. 

Verkin sem valin hafa verið til sýningar eru unnin í fjölbreytta miðla bæði video-verk, ljósmyndir, málverk, teikningar og útsaumsverk. Í verkunum takast listamennirnir á við spurningar um stöðu karla innan fjölskyldu hvað varðar hugmyndir um þátttöku í heimilislífi, ábyrgð á afkomu og uppeldi barna.



Á sýningunni verða sýnd verk eftir fjóra karllistamenn í fremstu röð, þá Curver Thoroddsen (f. 1976), Finn Arnar Arnarson (f. 1965), Hlyn Hallsson (f. 1968) og Kristinn G. Harðarson (f. 1955).

Í tengslum við sýninguna munu listamenn taka þátt í umræðu um viðfangsefnið og list sína á sérstökum viðburðum. Nánari upplýsingar og dagskrá viðburða má finna á heimasíðu Menningar- og listamiðstöðvar Hafnafjarðar – Hafnarborg.