- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Fullt var út úr dyrum á hádegisfundi sem haldinn var á Akureyri í dag í tilefni Alþjóðlegs baráttudags kvenna. Yfirskrift fundarins var „Tæklum þetta! Viðbrögð íþróttahreyfingarinnar við #MeToo“. Þegar síðasta erindi fundarins hafði verið flutt risu fundarmenn úr sætum og sjá mátti að umræðan hafði hreyft mjög við fólki. Hefð hefur skapast fyrir því að Zontaklúbburinn Þórunn hyrna og Zontaklúbbur Akureyrar í samstarfi við Jafnréttisstofu boði til hádegisfunda í tilefni Alþjóðlegs baráttudags kvenna. Á fundunum hafa ýmis mál sem brenna á konum verið tekin fyrir.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, ávarpaði fundinn og talaði almennt um #Metoo byltinguna og íþróttir. Halla benti meðal annars á að mikil meirihluti þeirra sem stunda íþróttir eru börn og unglingar og það er á ábyrgð hinna fullorðnu að tryggja öryggi þeirra. Hún sagði okkur öll þurfa að horfa í eigin barm og vinna saman að uppræta ofbeldi sem viðgengist hefur í íþróttum.
Viðar Sigurjónson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri, fór í máli sínu yfir það mikilvæga starf sem fram fer innan íþróttahreyfingarinnar. Viðar sagði það ávallt vera markmið íþróttahreyfingarinnar að tryggja öryggi, jafnrétti og jafnræði þeirra sem iðka og starfa innan íþróttahreyfingarinnar. Hann sagði ÍSÍ taka #MeToo umræðuna mjög alvarlega og hafa gripið til ýmissa aðgerða til að uppræta ofbeldi innan íþróttahreyfingarinnar og tryggja öryggi iðkenda.
Anna Soffía Víkingsdóttir, júdókona og margfaldur meistari í sinni grein, sagði #MeToo byltinguna vera femíníska byltingu. Hún sagði að áhrif allra þessara hugrökku kvenna sem stigið hafa fram eigi eftir að hafa áhrif til framtíðar en minnti á að baráttunni sé hvergi nærri lokið.
Anna Soffía lýsti því hvernig hún reyndi að aðlaga sig þeirri karllægu menningu sem ríkti innan júdóíþróttarinnar og hvernig hún reis upp gegn henni. Hún sagði frá því hvernig hún vinnur að því að skapa stúlkum í júdó betra og skemmtilegra umhverfi sem byggir á samkennd en ekki samkeppni.
Anna Soffía lauk máli sínu á því að hvetja öll sérsambönd, íþróttafélög, þjálfara og iðkendur til þess að horfa í eigin barm og spyrja sig hvað getum við gert til þess að breyta þeirri skaðlegu menningu sem hefur fengið að grassera innan ýmissa íþrótta. Þegar Anna Soffía hafði lokið máli sínu stóðu fundargestir úr sætum sínum og klöppuðu ákaft.
Fundarstjóri var Ragnheiður Runólfsdóttir, ólympíufari og sundþjálfari.