Teikni- og ljóðasamkeppni Jafnréttisstofu og Eymundsson

Jafnréttisstofa efnir til teikni- og ljóðasamkeppni meðal barna á mið- og unglingastigi grunnskóla í samstarfi við Eymundsson. Stofan vill með keppninni vekja athygli barna, foreldra og starfsfólks skólanna á mikilvægi jafnra tækifæra stúlkna og drengja, karla og kvenna til að velja sér menntun og störf með tilliti til áhuga og hæfileika óháð kyni og stuðla að jafnréttisfræðslu.Í ár er Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og verður jafnréttisfræðsla í skólum eitt af fimm megin jafnréttisþemum ársins. Í haust 21. - 22. september verður ráðstefna um jafnréttisfræðslu í skólum haldin hér á landi þar sem fyrirmyndarverkefni Norðurlandanna verða kynnt. Myndir íslensku nemendanna verða sýndar í tengslum við ráðstefnuna en myndir og ljóð munu einnig prýða veggi í Eymundsson strax í kjölfar ráðstefnunnar. Kennarar eru einnig hvattir til að senda Jafnréttisstofu fréttir af jafnréttisfræðslu í þeirra skólum en á ráðstefnunni munu viðurkenningar verða veittar fyrir jafnréttisstarf.

Bókaverslunin Eymundsson mun veita öllum þátttakendum viðurkenningu fyrir þátttöku og verðlaun fyrir bestu ljóð og myndir á degi barnsins 24. maí. Hæfileg stærð texta og mynda er A4 og skilafrestur 11. maí. Myndir og ljóð á að senda til Jafnréttisstofu.

Starfsfólk Jafnréttisstofu telur að beina þurfi sjónum í auknum mæli að börnum og ungmennum þegar unnið er að jafnréttismálum. Í jafnréttislögunum er kveðið á um að á öllum skólastigum skuli nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál, þar sem meðal annars skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi.

Kennarar sem telja að þeir hafi ekki nauðsynleg verkfæri í höndum hvað varðar jafnréttisfræðslu er bent á að hafa samband við Jafnréttisstofu. Á vef stofunnar er að finna námsefni og eins er mjög gott efni hér á síðunni og á nams.is sem kennarar geta stuðst við þegar verið er að fjalla um jöfn tækifæri og réttindi kynjanna.
Nú er lag að jafna leikinn og því mikilvægt að allir kennarar leggi hönd á plóginn við að vekja nemendur til umhugsunar um náms- og starfsval og hlutverk kynjanna í sem víðustum skilningi.

Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast hjá Bergljótu á Jafnréttisstofu s. 460-6205 (bergljot@jafnretti.is).