- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Alþingi hefur nú samþykkt framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára á grundvelli 11. gr. jafnréttislaga. Þetta er fimmta framkvæmdaáætlunin um aðgerðir til að vinna að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á Íslandi. Áætlunin skilgreinir stefnu stjórnvalda í jafnréttismálum og í henni er að þessu sinni 43 verkefni sem eiga að varpa ljósi á stöðu kynjanna eða fela í sér beinar aðgerðir til að stuðla að jafnrétti kynja.Þessi áætlun er með nokkuð breyttu sniði frá því sem verið hefur. Í stað þess að telja upp verkefni eftir hverju ráðuneyti er henni skipt í átta kafla eftir áherslusviðum ríkisstjórnarinnar. Kaflarnir heita: Stjórnsýslan, Vinnumarkaður launamisrétti kynjanna, Kyn og völd, Kynbundið ofbeldi, Menntir og jafnrétti, Karlar og jafnrétti, Alþjóðastarf, og Eftirfylgni og endurskoðun. Undir hverjum þessara kafla eru talin upp þau verkefni sem unnið verður að, þau tímasett, ábyrgðaraðilar tilgreindir og kostnaður vegna þeirra áætlaður. Verkefnin eru samtals 43 og er gerð grein fyrir hverju þeirra í þingsályktunartillögunni.
Hlutverk ráðherranefndar um jafnrétti kynja, sem sett var á fót árið 2009, er skilgreint en hún gegnir virku hlutverki við að fylgja framkvæmdaáætluninni eftir. Kveðið er á um endurskoðun jafnréttisáætlana ráðuneytanna og styrkja á stöðu jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Unnið verður að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stjórnsýslunni. Sem dæmi um verkefni þar sem kynjasamþættingu verður beitt eru aðgerðir til að vinna gegn kynbundnu starfsvali karla og kvenna við vinnumiðlun og skipulag virkra vinnumarkaðsúrræða þar sem tryggt verði að öll störf standi jafnt konum sem körlum til boða. Enn fremur verði gætt að jafnræði kynja við sértækar aðgerðir stjórnvalda sem ætlað er að stuðla að fjölgun starfa og nýsköpun. Á sviði menntamála verði gert átak í jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum.
Áfram verður unnið að innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar sem felur í sér að kynjasamþættingu verði beitt í öllu fjárlagaferlinu. Þannig verði metið hver séu líkleg áhrif fjárlaga á aðstæður kynjanna og er markmiðið að endurskipuleggja bæði tekju- og gjaldahlið fjárlaga á grundvelli jafnréttissjónarmiða. Átta aðgerðir eru í áætluninni til að draga úr launamisrétti kynjanna. Meðal annars að lokið verði við gerð jafnréttisstaðla eða -staðals, launaumsjónarkerfi ríkisins verði endurbætt svo unnt verði að gera reglulegar úttektir á launum karla og kvenna í ráðuneytum og stofnunum ríkisins auk þess sem skoða á starfsmatskerfi sveitarfélaganna. Einnig verður efnt til samstarfs við aðila vinnumarkaðarins um innleiðingu vegvísis um launajafnrétti, gefinn verður út leiðbeiningabæklingur um túlkun ákvæðis um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf og gátlisti fyrir forstöðumenn stofnana um viðmið varðandi endurskoðun á launum þannig að markmiðum um launajafnrétti verði náð.
Hægt er að kynna sér framkvæmdaáætlunina í heild á heimsíðu alþingis