- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þann 19. júní síðastliðinn var samþykkt á Alþingi þingsályktun um að stofnaður verði Jafnréttissjóður Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 2016–2020, 100 milljónir. kr. á ári.
Jafnréttissjóði Íslands er ætlað að styrkja verkefni sem auka jafnrétti kynjanna. Í ályktuninni segir að jafnréttissjóðurinn skuli hafa að markmiði að styrkja verkefni sem varpa ljósi á samfélagslegan, umhverfislegan og efnahagslegan ávinning af auknu jafnrétti; verkefni sem vinna gegn launamun kynjanna og efla almennt jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði; verkefni sem er ætlað að vinna gegn kynbundnu ofbeldi; þróunarverkefni í skólakerfinu; verkefni sem eru til þess fallin að hvetja ungt fólk af báðum kynjum til aukinnar samfélagslegrar þátttöku og rannsóknarverkefni sem eru til þess fallin að varpa ljósi á stöðu kynjanna jafnt í samtíð sem fortíð
Þingályktunin var rædd og samþykkt þann 19. júní þegar þess var minnst að hundrað ár voru liðin síðan konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Atkvæði greiddu 62 þingmenn og ályktunin var samþykkt með 61 atkvæði.
Stjórnsýsla sjóðsins, bæði varsla hans og umsýsla, heyrir undir forsætisráðuneytið. Innan ráðuneytisins er nú þegar starfandi rannsóknarsjóður. Með þingsályktunartillögunni tekur Jafnréttissjóður Íslands við rannsóknarverkefnum þess sjóðs á þeim tíma sem Jafnréttissjóður Íslands starfar. Sjá þingsályktunina hér.