- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna birtir Amnesty International tvær skýrslur sem skoða kynferðislegt ofbeldi annars vegar í Kambódíu (Breaking the silence: Sexual violence in Cambodia) og hins vegar í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð (Case Closed: Rape and Human Rights in the Nordic Countries).
Staðan í fátækum og ríkum löndum er svipuð, konum sem er nauðgað eða eru misnotaðar hafa litla möguleika á að sjá árásarmennina leidda fyrir dómstóla. Það er átakanlegt að á 21. öldinni, í ljósi allrar þeirrar löggjafar sem ætlað er að tryggja jafnrétti kvenna, nær nánast ekkert ríki að vernda konur eða tryggja að nauðgarar séu sóttir til saka fyrir glæpi sína.
Skýrslur Amnesty International sýna að þolendur kynferðislegrar misnotkunar og heimilisofbeldis sem reyna að leita réttlætis mæta margs konar hindrunum. Meðal þeirra eru ófullnægjandi, neikvæð eða vanvirðandi viðbrögð lögreglu og starfsfólks heilbrigðis- og dómskerfis. Vegna langvarandi afskiptaleysis yfirvalda veigra margar konur sér við að tilkynna þessa glæpi til lögreglunnar, skammast sín eða kenna sér um.
Í þeim tilfellum þar sem konur leita til lögreglu og leggja fram kæru ná kröfur þeirra um skaðabætur og réttlæti sjaldnast fram að ganga. Í báðum skýrslunum kemur fram að ákærur vegna nauðgana eru mjög sjaldgæfar í samanburði við önnur brot.
Kynferðislegt ofbeldi er einfaldlega ekki tekið alvarlega ef ekki er líka um gróft líkamlegt ofbeldi að ræða. Kona sem hefur verið nauðgað og ber ekki sjáanleg líkamleg merki er oft gerð ábyrg fyrir glæpnum en nauðgarinn kemst undan án þess að sæta nokkrum viðurlögum, hvorki félagslegum né lagalegum.
Dómskerfin sem skoðuð eru í skýrslunum eru ólík. Amnesty International kemst að því að öllum eru eyður og misræmi sem hindra konur og stúlkur í því að leita réttlætis vegna kynferðisglæpa.
Á Norðurlöndunum, til dæmis, er það ofbeldi eða hótanir um ofbeldi sem ákvarða alvarleika nauðgana en ekki hvort verið er að brjóta gegn kynferðislegu sjálfræði konu. Í skýrslunni Case Closed er m.a. fjallað um mál í Finnlandi þar sem maður neyddi konu til að hafa samfarir á salerni á bílastæði. Hann lamdi höfði hennar við vegg og þrýsti handlegg hennar á bak aftur. Í mati saksóknara var þetta ekki nauðgun þar sem ofbeldið, sem beitt var, var samkvæmt mati saksóknara lítilsháttar. Maðurinn var dæmdur fyrir þvinguð kynmök og dæmdur til sjö mánaða skilorðsbundins fangelsis.
Til samanburðar er hægt að taka dæmi um refsingar fyrir að neita herþjónustu eða borgaralegri þjónustu. Í Finnlandi liggur við slíkri neitun að minnsta kosti sex mánaða fangelsi.
Í Kambódíu treysta konur ekki réttarkerfinu. Kostnaður sem tengist kæruferlinu aftrar þeim. Þolendur eru oft beðnir um að greiða mútur til að lögreglan hefji yfirhöfuð rannsókn. Peninga er einnig krafist vegna ýmissa útgjalda lögreglu við rannsóknina.
Í skýrslunni Breaking the Silence er greint frá því hvernig samið er utan dómstóla um greiðslur. Lögreglumenn eru milligöngumenn milli fjölskyldna fórnarlambsins og gerandans. Þrýst er á þolandann að falla frá kæru gegn greiðslu sem lögreglan tekur síðan hluta af.
Reynsla of margra kvenna af réttarkerfinu eykur á ofbeldisupplifunina. Sérhver gerandi sem kemst upp með þessa glæpi án þess að svara til saka er áminning um skeytingarleysi stjórnvalda um aðstæður þolenda kynferðisofbeldis.
Ofbeldi gegn konum er langvarandi og veruleg hindrun á jafnrétti. Amnesty International hefur því hvatt öll stjórnvöld til að grípa til raunhæfra aðgerða til að koma í veg fyrir rannsaka og refsa fyrir kynbundið ofbeldi. Mikilvægast er að tryggja konum sem sæta ofbeldi aðgang að réttlæti vegna þess skaða sem þær hafa orðið fyrir.
Amnesty International hefur auk þess hvatt allar ríkisstjórnir til að lýsa yfir fullum stuðningi við mannréttindi kvenna sem eru skráð í fjölmörgum mannréttindasamningum og í Peking-yfirlýsingunni.
Skýrslan Breaking the silence sexual violence in Cambodia
Skýrslan Cased closed rape and human rights in the Nordic countries Summary report