- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum tilfjögurra ára . Þetta er í sjötta sinn sem slík áætlun er lögð fram en markmið hennar er að tilgreina þau verkefni sem brýnust eru talin á sviði kynjajafnréttis.
Framkvæmdaáætlunin er lögð fram samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Skal ráðherra leggja hana fram að fengnum tillögum ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs, auk þess sem hliðsjón skal höfð af umræðum á jafnréttisþingi. Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum skal fela í sér verkefni sem ætlað er að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi.
Jafnréttisþing var haldið í fjórða skipti 25. nóvember 2015. Tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016–2019 fylgir skýrsla félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2013–2015 sem lögð var fyrir jafnréttisþingið.
Framkvæmdaáætlunin skiptist í sjö kafla og er þar kynnt 21 verkefni sem áætlað er að framkvæma á gildistíma hennar. Er þessu fyrirkomulagi ætlað að tryggja að áherslur og forgangsröðun stjórnvalda á sviði jafnréttismála birtist með skýrum hætti í framkvæmdaáætluninni.
Í framkvæmdaáætluninni er fjallað um samþættingu jafnréttissjónarmiða við alla ákvörðunartöku og stefnumótun í stjórnkerfinu í samræmi við jafnréttislög og áherslu á kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Gerð er tillaga um úttekt á jafnréttislögum og stjórnsýslu jafnréttismála þar sem kannað verði hvort markmið núgildandi laga og stjórnsýslu jafnréttismála sé í samræmi við alþjóðlega þróun og breytingar í íslensku samfélagi.
Miðað er við að á gildistíma áætlunarinnar verði áfram unnið að framkvæmd og eftirfylgni þeirra verkefna sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynja og árangur þeirra metinn. Lögð er áhersla á innleiðingu jafnlaunastaðalsins ÍST-85:2012 og að fram fari markvisst kynningarstarf á vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglugerð um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins. Í framkvæmdaáætluninni er í fyrsta skipti sérstakur kafli um karla og jafnrétti. Markmiðiðið er að auka hlut drengja og karla í öllu jafnréttisstarfi og kanna hvernig öll stefnumótun á sviði jafnréttismála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla.
Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016 - 2019.