- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Samráðshópur til þess að undirbúa vottun jafnra launa hér á landi hefur skilað tillögum sínum. Markmiðið með þeim er að fá fyrirtæki og stofnanir til að afla sér vottunar á því að unnið sé með markvissum hætti að launajafnrétti kynjanna.
Lagt er til að komið verði á laggirnar samvinnuverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík undir stjórn Árelíu E. Guðmundsdóttur lektors, Elínar Blöndal dósents og Margrétar Jónsdóttur dósents.
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra kynnti tillögur samráðshópsins á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Þar sagðist hann styðja eindregið að tillögur samráðshópsins kæmust sem fyrst í framkvæmd. Hann vonaðist til að kerfið og vottunin yrðu svo eftirsóknarverð ?að fyrirtæki telji afar mikilvægt að fá vottun á launajafnréttisstefnu sinni, það verði gæðastimpill á fyrirtækinu?.
Deloitte á Íslandi, Háskólinn í Reykjavík, Íslandspóstur og Orkuveitan hafa þegar ákveðið að sækjast eftir jafnlaunavottun og fjölmörg fleiri fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga sínum á að hljóta slíka vottun.
Verkefnið er frumkvöðlastarf á Íslandi og á sér ekki fyrirmynd í öðrum löndum.
Félagsmálaráðuneytið og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið munu ásamt framangreindum háskólum og Samtökum atvinnulífsins koma verkefninu á fót. Gert er ráð fyrir að fyrirtæki greiði gjöld fyrir þátttöku í vottunarferlinu og árgjald fyrir vottun. Bætt ímynd fyrirtækja er helsti hvati til þátttöku.
?Okkur er ekki til setunnar boðið?, sagði félagsmálaráðherra og minnti á viðvarandi 15,7% kynbundinn launamun samkvæmt könnun Capacent Gallup. ?Við verðum að sjá til þess að verkefnið geti þegar hafist.?
Samráðshópinn skipuðu Árelía Eydís Guðmundsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, formaður, Elín Blöndal, forstöðumaður Rannsóknarseturs í vinnurétti og jafnréttismálum við Háskólann á Bifröst, Margrét Jónsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík, Stefán Eyjólfsson, framkvæmdastjóri stjórnunar- og starfsmannamála hjá Air Atlanta, Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, og Fanný Gunnarsdóttir, formaður Jafnréttisráðs. Ingi Valur Jóhannsson deildarstjóri og Þór G. Þórarinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, störfuðu með hópnum.
Í nóvember 2006 urðu þau umskipti í samráðshópnum að Árelía Eydís Guðmundsdóttir tók við formennsku af Orra Hlöðverssyni framkvæmdastjóra, Margrét Jónsdóttir leysti Guðfinnu Bjarnadóttur, þáverandi rektor Háskólans í Reykjavík, af hólmi og Stefán Eyjólfsson tók við af Hafþóri Hafsteinssyni, forstjóra Avion Group.
Samráðshópurinn hélt samtals 11 fundi. Í starfi sínu kynnti hópurinn sér fyrirkomulag Íslensku gæðaverðlaunanna og gæðavottun í Bandaríkjunum á vegum fyrirtækisins ?Catalyst?. Rannsóknarsetrið í vinnu- og jafnréttismálum lagði fram vinnuskjal undir heitinu ?Athugun á hvernig framkvæmd ýmissa ríkja er á eftirfylgni með launajafnrétti kynjanna/vottun á launajafnrétti í fyrirtækjum?. Í þessari athugun sem náði til átta landa kom fram að ekki er fyrir hendi samsvarandi jafnréttisvottun og var til umfjöllunar í samráðshópnum. Fulltrúar frá eftirtöldum aðilum mættu á fundi samráðshópsins: Avion Group, Vistor hf., Capacent Gallup, Orkuveitunni, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Landsvirkjun, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Samtökum atvinnulífsins, VR, Alþýðusambandi Íslands og fjármálaráðuneytinu.