- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þórunn Elísabet Bogadóttir aðstoðarritstjóri Kjarnans verður með hádegisfyrirlestur í anddyri Borga við Norðurslóð á Akureyri á morgun þriðjudaginn 29. nóvember. Þar mun Þórunn velta fyrir sér hvar mörk fjölmiðla liggja þegar fréttir eru fluttar af kynferðisofbeldismálum.
Fyrirlesturinn er hluti af dagskrá alþjóðlegs 16 daga átaks Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið er nú haldið í tuttugasta og fimmta sinn. Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO telur að þriðja hver kona í heiminum verði fyrir ofbeldi í nánum samböndum og fjórða hver kona verði fyrir einhvers konar kynbundnu ofbeldi. Ofbeldið er einstaklingunum afar dýrt líkamlega, andlega og félagslega og það kostar samfélagið gríðarlegar upphæðir. Að þessu sinni beina Sameinuðu þjóðirnar því til þjóða heims að sjá til þess að baráttan gegn kynbundnu ofbeldi fái það fjármagn sem dugar til að sinna brotaþolum, tryggja meðferð ofbeldismanna, fræða almenning og skapa réttlæti við málsmeðferð.