Veggspjald um einelti, kynferðislega áreitni, kynbunda áreitni og ofbeldi á vinnustöðum

Á síðasta ári gáfu Jafnréttisstofa og Vinnueftirlitið í sameiningu út dagatal þar sem minnt var á skyldur atvinnurekenda til að tryggja starfsfólki öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi. Liður í því er að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Á dagatalinu var teikning eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur með skilgreiningum og dæmum um óæskilega hegðun á vinnustað.

Vegna mikillar eftirspurnar var ákveðið að gera veggspjald með myndskreytingunni og senda það rafrænt og tilbúið til útprentunar til fyrirtækja og stofnana.

Í jafnréttislögum er kveðið á um skyldur fyrirtækja og stofnana til að setja sér aðgerðabundnar jafnréttisáætlanir þar sem sérstaklega skal tilgreina hvernig starfsfólki eru tryggð réttindi sem kveðið er á um í 19.-22. gr. laganna. Í 22. gr. er fjallað um kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni. Þar segir m.a.:

Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum.“

Jafnréttisstofa annast stjórnsýslu á sviði kynjajafnréttis, jafnrar meðferðar á vinnumarkaði og jafnrar meðferðar óháð kynþætti og þjóðernisuppruna á Íslandi í umboði forsætisráðherra. Stofnunin hefur eftirlit með því að jafnréttislögum sé framfylgt og sér um fræðslu og ráðgjöf.

Í 6. og 7. gr. reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er kveðið á um eftirfarandi:

Atvinnurekanda ber skylda til að láta einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað ekki viðgangast á vinnustað og skal hann gera starfsmönnum ljóst með skýrum hætti að slík hegðun sé óheimil.

„Atvinnurekandi skal bregðast við eins fljótt og kostur er þegar honum berst kvörtun eða ábending um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað sem og verði hann var við slíka hegðun eða aðstæður á vinnustaðnum sem líkur eru á að leitt geti til slíkrar hegðunar verði ekki gripið til aðgerða.“

Vinnueftirlitið er miðstöð vinnuverndarstarfs í landinu og byggir starf sitt á samþættingu eftirlits, fræðslu og rannsókna.Vinnueftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd vinnuverndarlaganna og reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Ef óskað er eftir að fá veggspjaldið sent í tölvupósti er hægt er að senda beiðni á netfangið jafnretti hjá jafnretti.is