Vel heppnað fjarnámskeið fyrir sveitarfélög um gerð jafnréttisáætlana

Úr myndveri Háskólans á Akureyri
Úr myndveri Háskólans á Akureyri

Jafnréttisstofa ásamt Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Rannsóknarseturs um sveitarstjórnarmál stóðu fyrir námskeiðinu, sem var fjarnámskeið. Alls voru þátttakendur 20 frá 16 sveitarfélögum enda sérstakur afsláttur ef þátttakendur voru fleiri en einn frá sama sveitarfélagi. Námskeiðið var þrjú skipti, tvær klst. í senn. Fyrstu tvö skipti var farið yfir lög og reglur, skyldur sveitarfélaga og hugmyndafræði kynjasamþættingar. Einnig kom gestur frá Akureyrarbæ og sagði frá hvernig kynjasamþætting væri fléttuð inn í starfsemi öldrunarheimila.

Síðasta skiptið voru umræður þar sem sérfræðingar Jafnréttisstofu veittu þátttakendum ráðgjöf útfrá því hvert þau væru komin í ferlinu, hverjar væru helstu hindranir og lausnir. Skapaðist áhugavert samtal þar sem miðlað var hugmyndum og ræddu þátttakendur um að halda samtali áfram og hafi þannig stuðning hvert af öðru og jafnvel  samstarf. Mörg tækifæri gefast til betri þjónustu í sveitarfélögum og jafnari skiptingu í návígi við íbúa, með aðferðum kynjasamþættingar og kynjaðri hagstjórn.

Þetta er fyrsta námskeiðið sem þessir aðilar halda saman og einnig það fyrsta sem er alfarið fjarnámskeið á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála. Væntanlega verða þau fleiri á næstunni, um hin ýmsu málefni.

Upptökur af námskeiðinu eru aðgengilegar í nokkrar vikur og því enn hægt að kaupa aðgang. Til þess þarf að hafa samband við Láru Hrönn Hlynsdóttur larah@hi.is     http://stjornsyslustofnun.hi.is/