- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Málþing Jafnréttisstofu um afnám kynjaðra staðalmynda í skólastarfi fór fram 9. maí. Þátttaka var mjög góð en skólastjórnendur, kennarar, námsráðgjafar og tómstunda- og forvarnarfulltrúar af öllum skólastigum mættu á ráðstefnuna.
Nýtt kennsluefni um jafnréttismál var kynnt en efnið samanstendur af 10 framhaldsþáttum fyrir unglinga sem taka á kynjuðum staðalmyndum og mismunun á kómískan hátt. Þáttunum fylgja kennsluleiðbeiningar og vefsíða þar sem fleira efni er að finna sem getur nýst kennurum við jafnréttisfræðslu. Kennarar í leik-, grunn- og framhaldsskóla kynntu jafnréttisstarf í sínum skólum og voru þau innlegg mjög fróðleg og til eftirbreytni. Helga María, aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Lundarseli á Akureyri, hefur leitt jafnréttisstarf í leikskólanum síðan 2008 en hin síðari ár hefur verið lögð sérstök áhersla á jafnréttisfræðslu fyrir starfsfólk. Hrafnhildur, María og Rakel, kennarar úr Oddeyrarskóla á Akureyri, sögðu frá þemaverkefni þar sem kynjajafnrétti var í forgrunni og kynntu verkefni nemenda sem voru mjög fjölbreytt og metnaðarfull. Þórður, kennari í Kvennaskólanum, sagði frá kennslu í kynjafræði og veitti hagnýta þekkingu um jafnréttisstarf á framhaldsskólastigi. Stefanía, Ýr og Elísabet, nemendur í MA og fulltrúar femínistafélags skólans, FEMMA, fluttu innlegg og gáfu kennurum og stjórnendum góð ráð við innleiðingu jafnréttismiðaðra kennsluhátta og lögðu áherslu á að kennslugögn verði að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins.