- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa stóð í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Garðabæ fyrir landsfundi um jafnréttismál sveitarfélaga dagana 4.-5. september sl. Um er að ræða árlegan viðburð þar sem ræddar eru ýmsar hliðar á því hlutverki sem sveitarfélögin gegna út frá jafnréttissjónarmiði og m.t.t. þeirra lagaskyldna sem að því lúta.
Dagskrá fundarins var mikil og þétt og mótaðist hún ekki síst af þeim þáttum sem helst hafa brunnið á sveitarfélögunum sem nú ýmist hafa nýlokið við að setja sér nýjar jafnréttisáætlanir til fjögurra ára eða eru að ljúka þeirri vinnu skv. lagaskyldu þar um.
Fyrri daginn var sjónum beint að annars vegar kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni og skyldum sveitarfélaga til að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir slíku á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum. Hins vegar var sérstaklega fjallað um kynjasamþættingu með áherslu á kynjaða fjárhagsáætlanagerð. En jafnréttislög kveða á um að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera.
Síðari daginn var víða komið við. Fjallað var um breytt lagaumhverfi jafnréttismála og kynnt til sögunnar nýleg lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kynjáningu; lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og lög um kynrænt sjálfræði. Fulltrúar Garðabæjar sögðu frá jafnréttisstarfi á vegum sveitarfélagsins sem tekur m.a. til skólasamfélagsins, íþrótta- og tómstunda og skipulagsmála. Þá var einnig rætt um hvernig gera megi kynjasamþættingu sjálfbæra í sveitarfélögum, niðurstöður könnunar Jafnréttisstofu á kynjahlutfalli í nefndum og ráðum sveitarfélaganna voru kynntar og fjallað um hvernig hafa megi jafnréttisáætlanir virkar svo þær skili árangri. Kynnt var jafnréttisúttekt á íþróttastarfi sem og skipulagt jafnréttisstarf í leikskóla. Áfram var umfjöllun um áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, tilraunaverkefni um styttingu vinnuviku kynnt sem og skyldur sveitarfélaga til að öðlast jafnlaunavottun.