- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Dagana 4.-6. maí voru dr. Diane Elson og dr. Sue Himmelweit staddar á landinu í boði Jafnréttisstofu. Á meðan á dvöl þeirra stóð fluttu þær erindi á ráðstefnu um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð og héldu námskeið fyrir fólk sem starfar að innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar. Auk þess hittu þær fjárlaganefnd Alþingis, félags- og tryggingarmálanefnd Alþingis, ráðuneytisstjóra, starfsfólk velferðarráðuneytis og verkefnisstjórn um kynjaða fjárlagagerð.
Ráðstefnan bar yfirskriftina Bætt hagstjórn Betra samfélag og var haldin á Hótel Sögu þann 4. maí sl. en fundarstjórn var í höndum Guðríðar Þorsteinsdóttur, skrifstofustjóra á skrifstofu réttindaverndar í hinu nýja velferðarráðuneyti. Oddný G. Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar opnaði ráðstefnuna og fjallaði um mikilvægi þess að skoða niðurskurð ríkisins með aðferð kynjaðrar hagstjórnar til að fá betri upplýsingar um áhrif niðurskurðar á þá þjónustu sem veitt er. Þannig verða stjórnendur betur í stakk búnir til að taka erfiðar ákvarðanir um niðurskurð. Einnig fjallaði hún um þriggja ára áætlun um innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar sem samþykkt var af ríkisstjórninni 27. apríl sl.
Á ráðstefnunni voru flutt fjögur erindi. Diane Elson reið á vaðið með erindið What Can Gender Responsive Budgeting Achive? Í erindinu skilgreindi hún kynjaða hagstjórn og ávinning þess að beita aðferðinni með tilvísun í mörg dæmi víðsvegar um heiminn. Susan Himmelweit tók svo við með erindið Gender Impact Assessment of Tax and Benefit Systems Þar fjallaði hún um hvernig hægt er að beita kynjaðri hagstjórn á tekjuhlið ríkisfjármála með hliðsjón af greiningu á tekjuskatti einstaklinga eftir kyni og hvernig barnabótakerfið í Bretlandi virkar.
Einnig fóru fram tvær kynningar á tilraunaverkefnum í kynjaðri hagstjórn. Annarsvegar kynnti Sigurður Guðmundsson, skipulagsfræðingur á tekju- og skattaskrifstofu fjármálaráðuneytisins rannsókn sína á millifæranleika persónuafsláttar milli samskattaðra einstaklinga. Niðurstöður hans eru m.a. þær að karlar eru mun líklegri en konur til að nýta persónuafslátt maka síns. Hinsvegar kynnti Bryndís Guðmundsóttir, verkefnastjóri, hag- og upplýsingamála hjá Landspítala, niðurstöður kynjagreiningar á biðlistum í hjartaþræðingu og liðskiptaaðgerðir. Niðurstöður hennar sýna að konur bíða almennt lengur en karlar eftir hjartaþræðingu. Það gæti þó haft eðlilegar skýringar sem þarf að greina betur. Varðandi liðskiptin var staðan jafnari þó konur virtust vera ver á sig komnar þegar þær fóru í liðskiptin. Bæði verkefni Bryndísar og Sigurðar eru enn í vinnslu en niðurstöður þeirra verða kynntar frekar í fjárlögum næsta árs.
Námskeið um kynjaða hagstjórn sem haldið var þann 5. maí var afar vel sótt. Flestir þátttakenda voru starfsfólk ráðuneyta en einnig voru starfsmenn sveitarfélaga auk fræðimanna og rannsakenda úr Háskóla Íslands og Háskóla Akureyrar, að ógleymdu starfsfólki Jafnréttisstofu.
Fundir þeirra Elson og Himmelweit með fjárlaganefnd og félags- og tryggingamálanefnd voru afar fróðlegir. Þær kynntu hugmyndafræði kynjaðrar hagstjórnar auk þess að nefna dæmi um hvernig hægt er að nýta aðferðina til þess að byggja góðan grunn að ákvarðanatöku. Þingmönnum þóttu erindi þeirra áhugaverð og spunnust líflegar umræður.
Á fundi ráðuneytisstjóra var þriggja ára áætlun um innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar rædd og ráðuneytisstjórarnir fengu tækifæri til að spyrja þær ráða.
Himmelweit hitti starfsfólk velferðarráðuneytisins og kynnti fyrir þeim hvernig hægt er að nýta kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð á málasviði ráðuneytisins. Fjallað var um hugtakið ólaunaða hagkerfið en það vísar í ólaunaða vinnu á heimilum sem oft ber að reikna inn í áætlanir um breytingar á velferðarkerfinu. Einnig kynnti hún niðurstöður rannsóknar í Bretlandi á áhrifum niðurskurðar í velferðarkerfinu þar í landi.
Auk þessa alls hittu Elson og Himmelweit verkefnisstjórn um kynjaða fjárlagagerð sem starfar að innleiðingu aðferðarinnar hér á landi. Heimsóknin var þeim afar nytsamleg þar sem hægt var að spyrja sérfræðingana ráða um hin ýmsu atriði sem hafa komið upp í starfi verkefnastjórnarinnar auk þess sem verkefnastjórnin fékk tækifæri á að kynna starf sitt fyrir gestunum. Verkefnastjórnin er Jafnréttisstofu mjög þakklát fyrir að fá þetta tækifæri til að fræðast enn frekar og sækja leiðbeiningar til færustu sérfræðinga á þessu sviði.