- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Stjórnendur hjá Akureyrarbæ ásamt nefndarformönnum, kjörnum fulltrúum og bæjarstjóra sátu síðastliðinn föstudag fræðslu um samþættingu kynjasjónarmiða í starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins. Dagurinn var sérstaklega skipulagður til að miðla þekkingu um árangur verkefna sem horft hafa til jafnréttissjónarmiða við fjárveitingu og þjónustu, ásamt því að kynna markmið kynjaðrar hagstjórnar.
Friðný B. Sigurðardóttir, þjónustustjóri öldrunarheimila, kynnti verkefni þar sem 4H aðferðinni var beitt til að skoða iðju- og félagsstarf á hjúkrunarheimilinu Hlíð. Með aðferðinni gafst tækifæri til að meta gæði starfseminnar og finna lausnir sem miða að réttlátari skiptingu fjármuna þegar kemur að þjónustu við aldraða.
Jón Bragi Gunnarsson, hagsýslustjóri Akureyrarbæjar, gerði grein fyrir möguleikum kynjaðrar hagstjórnar með sérstaka áherslu á starfsfólk og þjónustuþega, ásamt því að ræða mun á lögbundnum og ólögbundnum verkefnum og ástæðum misskiptingar.
Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti, fjallaði um verkefni aðgerðahópsins og kynnti markmið með vinnu við svokallaðan jafnlaunastaðal. Anna Kolbrún kynnti einnig markmið með veitingu sérstaks jafnlaunamerkis til þeirra skipulagsheilda sem innleitt hafa jafnlaunakerfi.
Þátttakendur unnu síðan í hópum til að ræða möguleika jafnréttisstarfs í ýmsum málaflokkum. Að lokum dró Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, saman umræður dagsins og greindi frá fyrirætlunum um að vinna áfram að innleiðingu markmiða um samþættingu kynjasjónarmiða í starfsemi og þjónustu.