Miðvikudaginn 10. febrúar 2010 efna Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, Viðskiptaráð Íslands, Leiðtoga-Auður, iðnaðarráðuneytið, efnahags- og viðskiptaráðuneyti og Creditinfo til tímamótafundar á Hótel Nordica. Þar verður greint frá því hvernig viðskiptalífið hyggst fjölga konum í stjórnum fyrirtækja. Fundurinn er haldinn til að fylgja eftir samstarfssamningi SA, FKA og VÍ sem undirritaður var 15. maí 2009 um að fjölga konum í forystusveit íslensk atvinnulífs til loka ársins 2013 þannig að hlutur hvors kyns verði ekki undir 40%. Allir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi skrifuðu undir samninginn og veita honum stuðning sinn.
Fundurinn Virkjum karla og konur - fjölbreytni í forystu er haldinn í kjölfar tveggja stórra ráðstefna árin 2007 og 2008 sem fóru fram undir yfirskriftinni
Virkjum kraft kvenna og
Virkjum fjármagn kvenna þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að auka hlut kvenna í íslensku atvinnulífi án valdboða. Um 800 konur mættu á ráðstefnurnar tvær en karlmenn voru í miklum minnihluta. Nú er kominn tími til að bæta úr því og boðið upp á tvö fyrir einn - aðeins er greitt eitt þátttökugjald fyrir karl og konu sem koma saman til fundarins og leggja þar með sitt af mörkum við að auka fjölbreytni atvinnulífsins.
Nýleg rannsókn Creditinfo sýnir að fyrirtæki sem stofnuð eru af báðum kynjum eru líklegust til að lifa og blandaðar stjórnir karla og kvenna hafa reynst best. Þá eru fyrirtæki síður líkleg til að lenda í vanskilum ef þau eru rekin af konum og arðsemi eigin fjár er meiri í fyrirtækjum þar sem konur eru framkvæmdastjórar. Það er því bæði skynsamlegt og nauðsynlegt að halda áfram að fjölga konum í forystusveit atvinnulífsins en vorið 2009 voru konur 19,8% stjórnarmanna hlutafélaga og er hlutdeild kvenna í atvinnulífinu á Íslandi algeng í kringum 20% sem framkvæmdastjórar, stjórnarformenn, stjórnarmenn, prókúruhafar og stofnendur fyrirtækja. Hlutfall kvenna í varastjórnum hlutafélaga er hins vegar 51%.
Skráning og morgunverður frá kl.8:00 en formleg dagskrá hefst stundvíslega kl. 8:15 og verður lokið ekki síðar en kl. 10:00. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, setur fundinn en fjöldi stjórnenda í atvinnulífinu mun stíga á stokk. Meðal þeirra er Þóranna Jónsdóttir, hjá Auði Capital, sem mun fjalla um hvernig fjölbreytni bætir karla. Þóranna mun kynna ágrip úr nýlegri rannsókn um áhrif fjölbreyttrar samsetningar á verklag stjórna. Þá mun S. Alex Haslam frá háskólanum í Exeter flytja erindi um konur og forystu: From Glass Ceiling to Glass Cliff.
Nánari dagskrá verður birt á næstu dögum en þeir sem hafa nú þegar gert upp hug sinn um að skynsamlegt sé að virkja bæði konur og karla til þátttöku í atvinnulífinu geta skráð sig nú þegar.
Þátttökugjald er kr. 3.900 fyrir staka þátttakendur ásamt morgunverði. Tvö fyrir einn: Fyrir karl og konu sem mæta saman er þátttökugjald kr. 3.900 ásamt morgunverði fyrir tvo.
Skráning fer fram á heimasíðu SA