- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Kvenréttindadagurinn er runninn upp í 101 sinn. Það var 19. júní árið 1915 sem Danakonungur undirritað lögin sem veittu íslenskum konum 40 ára og eldri kosningarétt til Alþingis. Haldið hefur verið upp á daginn frá árinu 1916, lengi vel með fjáröflun til Landspítalasjóðsins en íslenskar konur ákváðu að safna fé til byggingar Landspítala í minningu kosningaréttarins.
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað gömlu kempurnar Ólafía Jóhannsdóttir, Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Ingibjörg H. Bjarnason, Jónína Jónatansdóttir, Laufey Valdimarsdóttir og allar hinar myndu segja um stöðu íslenskra kvenna í dag. Eflaust yrðu þær ánægðar með margt, t.d. hlut kvenna í stjórnmálum en þær ruddu brautina með kvennaframboðum snemma á 20. öld. Þeim var aftur beitt undir lok aldarinnar með góðum árangri. Eflaust yrðu þær ánægðar með þau félagslegu réttindi sem áunnist hafa, t.d. fæðingarorlof, aðbúnað á vinnustöðum og jafnrétti til náms og starfa, sem Bríet átti stóran þátt í að koma í lög 1911, en tók langan tíma að verða að veruleika. Mikil menntun kvenna og gríðarleg atvinnuþátttaka myndu eflaust gleðja þessar formæður okkar.
Launamisréttið enn til staðar
Margt myndi þó valda þeim vonbrigðum. Árið 1914 beittu þær Bríet og Jónína sér fyrir stofnun fyrsta verkakvennafélagsins á Íslandi sem hét Framsókn. Markmiðið var ekki síst að hækka og jafna laun kvenna og karla í sömu störfum en konur fengu um helming af tímakaupi karla í sinn hlut. Nú 103 árum síðar er launamisréttið enn til staðar. Rétt fyrir þinglok samþykkti Alþingi breytingar á jafnréttislögum sem kveða á um jafnlaunavottun eða viðurkenningu. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig staðallinn virkar og mikil vinna framundan við að búa fyrirtæki og stofnanir undir slíka vottun.
Annað sem eflaust myndi vekja athygli kvenréttindakvennanna gömlu er hve seint gengur að jafna ábyrgð á heimilisstörfum og uppeldi barna. Þau málefni voru ekki ofarlega á dagskrá í upphafi 20. aldar enda fannst mörgum óhugsandi að karlar sæju um heimilisstörf og uppeldi barna. Mæta átti aukinni atvinnuþátttöku kvenna með barnaheimilum og aðkeyptri þjónustu. Á tímabili fengu giftar konur skattaafslátt sem rökstuddur var með því að þær þyrftu að kaupa heimilisþjónustu. Úti í Evrópu er umönnun aldraðra og sjúkra ættingja til umræðu sem hluti af samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu. Fólk verður sífellt eldra og gömlu fólki á eftir að fjölga mikið á næstu árum og áratugum þegar „baby boom“ kynslóðin kemst á eftirlaun. Hver á að hugsa um gamla fólkið? Eins gott að beita kynjagleraugunum á þau mál. Innan Evrópusambandsins eru til umræðu drög að nýrri tilskipun sem m.a. felur í sér 5 daga frí á ári fyrir vinnandi fólk vegna ummönnunar ættingja.
Hvað dvelur Orminn langa?
Þriðja málið sem væntanlega myndi vekja furðu formæðranna er staða, umfang og eðli kynbundins ofbeldis. Þau mál voru lítt til umræðu á þeirra baráttuárum en kvennahreyfingar vissu þó vel um ofbeldi gegn konum og börnum. Enn er mikið verk að vinna við að kveða niður kynbundið ofbeldi. Ísland hefur ekki enn innleitt Istanbúlsamning Evrópuráðsins sem kveður á um aðgerðir til að kveða niður ofbeldi gegn konum. Hvað dvelur Orminn langa?
Jafnréttisstofa fékk nýlega styrk frá Evrópusambandinu til að vinna verkefni sem snýst um að efla samstarf milli þeirra aðila sem vinna gegn kynbundnu ofbeldi, einnig að auka fræðslu og vitundarvakningu meðal almennings. Vonandi eigum við eftir að að kveða niður nauðgunarómenninguna, beina sjónum í æ ríkara mæli að gerendum, stórbæta þekkingu og meðvitund um þá skyldu borgaranna að tilkynna um ofbeldi gegn börnum, bæta þjónustu við brotaþola um allt land og breyta meðferð ofbeldismála í réttarkerfinu.
Það er sannarlega verk að vinna. Við heiðrum gömlu kvenréttindakonurnar og stuðningsmenn þeirra mest og best með því að halda baráttunni áfram. Til hamingju með kvenréttindadaginn.