Á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna: Ofbeldinu verður að linna
„Ef takast á að draga úr ofbeldi gegn konum verður að framfylgja lögum, efla forvarnir og samræma þær viðbrögðum, sjá til þess að þjónusta við brotaþola sé samhangandi og tryggja að við höfum raunhæfa mynd af ástandinu með því að safna og skrá áreiðanlegar upplýsingar.“ Þetta var inntakið í ræðu Michelle Bachelet framkvæmdastýru UN Women þegar hún opnaði árlegan fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hófst 1. mars og lauk 15. mars síðast liðinn. Að þessu sinni var viðfangsefnið ofbeldi gegn konum í samræmi við einn af köflum Pekingsáttmálans frá 1995. Búist var við töluverðri spennu og átökum á fundinum því íhaldsöflum víða um heim er mjög illa við afskipti af rótgrónum hefðum og venjum, svo sem yfirráðum karla yfir konum, limlestingum á kynfærum kvenna, heiðursmorðum og fleiri ósiðum sem tíðkast víða um heim, að ekki sé talað um rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Vatíkanið sem hefur áheyrnaraðild að SÞ fer sem löngum fyrr fremst í flokki þeirra sem berjast gegn rétti kvenna til kynheilbrigðis (e. reproductive health). Það nýtur stuðnings fjölda ríkja þar sem kaþólska kirkjan er sterk sem og múslimalanda þar sem íslamsistar eru öflugir.
Norræn samvinna í jafnréttismálum
Fundir kvennanefndar SÞ eru fjölsóttir. Þangað mæta yfirleitt stórar sendinefndir ríkja heims og ógrynni kvennasamtaka efna til hliðarviðburða, þ.e. funda utan við skipulagða dagskrá fundarins. Mörg aðildarríkjanna efna til hliðarviðburða og undanfarin ár hafa Norðurlöndin staðið saman að fundum þar sem ýmislegt hefur verið tekið fyrir. Að þessu sinni voru haldnir tveir sameiginlegir fundir. Annars vegar ráðherrafundur þar sem jafnréttisráðherrar Norðurlandanna fjölluðu um aðgerðir til að virkja karla og drengi í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, hins vegar var haldinn fundur sem við fyrstu sýn virðist utan við efnið en hann fjallaði um kyn, loftslagsbreytingar og líffræðilegan fjölbreytileika í hnattvæddum heimi. Ísland bauð svo til sérstaks viðburðar um þróun og hlutverk kvennaathvarfa á Norðurlöndunum.
Á fundi norrænu ráðherranna kom ýmislegt athyglisvert fram. Allar þjóðirnar eru með aðgerðaáætlanir til að draga úr kynbundnu ofbeldi. Svíar eru að vinna að ítarlegri úttekt á stöðu mála hjá sér, t.d. er verið að skoða hvaða úrræði skila árangri, hvað það er sem hindrar árangur og til hvaða aðgerða þurfi að grípa. Skipaður var sérstakur verkefnisstjóri til tveggja ára sem á að skila af sér tillögum á næsta ári. Það er ljóst að ein helsta hindrunin á vegi árangurs í baráttunni við kynbundið ofbeldi er sú staðreynd að það á sér að miklu leyti stað innan heimila og er því oft dulið. Svíar segja að það þurfi að stórbæta upplýsingastreymi milli þeirra sem vinna að ofbeldismálum, beina sjónum að forvörnum og breyta hugarfari, sérstaklega hjá körlum. Danir telja sig hafa náð árangri við að draga úr ofbeldi í nánum samböndum með miklum upplýsingaherferðum og skýrum úrræðum fyrir brotaþola. Vandinn hjá þeim varðar ekki síst þá hópa sem erfitt er að ná til, svo sem fólks af erlendum uppruna og þess ofbeldisgeira sem tengist vændi og mansali. Danir hafa leitað liðsinnis fótboltamanna sem hafa lagt málefninu lið, m.a. í herferðinni „Gefum ofbeldinu rauða spjaldið“. Finnar vinna markvisst að baráttu gegn ofbeldi. Félags- og heilbrigðisráðuneytið (sem fer með jafnréttismál) heldur utan um þverfaglegt teymi þeirra ráðuneyta sem fást við ofbeldismál. Það hittist mánaðarlega, ber saman bækur og miðlar upplýsingum. Eitt af því sem Finnar hafa mikinn áhuga á er að Norðurlöndin þrói saman áhættumat hvað varðar ofbeldi í nánum samböndum. Slíkt verkefni hefur þegar fengið styrk frá Norrænu ráðherranefndinni og hefst innan skamms. Hér má skjóta því inn að á fundi sem Svíar stóðu fyrir kom fram að það væri mjög bagalegt hve áhættumat kvennaathvarfa og lögreglu eða dómstóla væri ólíkt. Fyrir skömmu var kona skotin til bana af fyrrverandi maka sínum úti á götu í Stokkhólmi. Það hafði verið farið fram á nálgunarbann gagnvart karlinum en þar sem hann var ekki á sakaskrá taldi dómari að konunni stafaði ekki hætta af honum. Í Finnlandi er búið að setja á laggir „strákahús“ sem bjóða strákum sérstaklega upp á fræðslu og ýmis konar þjónustu. Fróðlegt væri að kynna sér þá starfsemi nánar. Í Noregi er búið að skylda sveitarfélögin til að bjóða upp á kvenna- og karlaathvörf. Tvö karlaathvörf eru starfandi en aðsókn að þeim er afar lítil. Einkum eru það ungir menn af erlendum uppruna sem leita sér skjóls til að komast hjá þvinguðu hjónabandi, þ.e. hjónabandi sem skipulagt er af fjölskyldunni. Norðmenn hafa líka unnið að því að efla feðrahópa, þ.e. að fá feður til að miðla reynslu til annarra feðra. Undirrituð sem flutti ræðu fyrir hönd velferðarráðherra sagði frá baráttu gegn nauðgunum, t.d. bréfinu sem 100 karlar skrifuðu þjóðhátíðarnefnd Vestmannaeyja, úrræðinu Karlar til ábyrgðar og þeirri miklu umræðu sem orðið hefði um klám og áhrif þess á kynímyndir auk mikillar umræðu um kynferðisofbeldi sem börn hafa verið beitt. Margir þökkuðu fyrir að klámið skyldi tekið til umræðu og voru áhrif þess mikið rædd.
Aftur til fjölbreyttari búskaparhátta
Á fyrrnefndum fundi um loftslagsmál greindu fyrirlesarar frá ýmsum aðgerðum sem beinast að því að draga úr fátækt og vannæringu í fátækum ríkjum heims en fátækt og barátta um auðlindir eins og vatn valda miklum átökum og ofbeldi. Því minni fátækt og betri lífskjör, því minna skipulagt ofbeldi. Samtökin Biodiversity International vinna að því að fátækir bændur, en þar eru konur í meirihluta, eignist aftur land og taki aftur upp ræktun á næringarríkum plöntum í stað þess að láta stórframleiðendur einoka framleiðslu á örfáum plöntum. Emile Frison framkvæmdastjóri samtakanna sagði að á jörðinni yxu um það bil 300.000 plöntur, þar af eru 30.000 hæfar til manneldis. Af öllum þessum fjölda eru þrjár jurtir alls ráðandi, þ.e. hveiti, hrísgrjón og maís. Meðferðin á þeim í matvælaiðnaði heimsins er þannig að þær eru allar mjög næringarsnauðar. Því er mikilvægt að fá fólk til að taka aftur upp ræktun á næringarríkari jurtum til að draga úr hungri og fátækt. Hungrið er tímasprengja sagði Frison. Þá var ekki síður athyglisvert að hlusta á matreiðslumeistarann Trine Hahnemann frá Danmörku. Hún er í forystusveit hreyfingar sem vinnur að því að auka neyslu á „norrænum“ hreinum mat og gera samfélög okkar sjálfbærari. Í því felst m.a. að fá fólk til draga stórlega úr sóun, kaupa það sem er óunnið, þ.e. ferskt hráefni og snúa baki við stórfyrirtækjunum sem flytja matvæli heimsálfanna í milli, með allri þeirri mengun sem því fylgir að ekki sé nú talað um öll rotnunarefnin. Hahnemann sagði sögu af danskri konu sem erfði býli foreldra sinna. Þegar hún hóf búskap var aðeins ein tegund húsdýra á bænum og tveir starfsmenn. Nú eru starfsmennirnir 25 og framleiðslan sem auðvitað er lífræn er fjölbreytt. Býlið hefur m.a. fengið verðlaun fyrir osta sínu. Konan tók upp blandaðan búskap, fór að rækta mun fleiri jurtir til að gefa skepnunum (sem auðvitað hreyfa sig utan dyra) og viti menn það hefur stórdregið úr sjúkdómum og þar með lyfjagjöf. Hahnemann sagðist vera mikil talskona þess að auka ræktun á hvers kyns korni á Norðurlöndum, ekki síst rúgi sem ætti í vök að verjast en er auðvitað mjög hollur. Hún gaf fundarmönnum lítinn poka með rúgkornum sem eru af tegundinni Black Bali (held að þetta sé rétt eftir haft) en það var orðið mjög fágætt og aðeins til á smá svæði í Þýskalandi. Nú er unnið að útbreiðslu þess. Gallinn á þessari stefnu er auðvitað sá að sérunnar vörur beint frá býli eru mjög dýrar og því ekki á allra færi að kaupa þær en hollustan svíkur ekki. Hahnemann er í miklu samstarfi við bændur í Bandaríkjunum sem eru að hverfa frá stórbúskapnum og ná landinu til baka í þeim tilgangi að auka sjálfbærni og bæta lífsgæði. Það hefur oft verið gert grín að afturhvarfi til náttúrunnar en þróunin er greinilega í þá átt enda ber jörðin ekki þá lifnaðarhætti sem vestræn (ó)menning hefur skapað og veldur gríðarlegri misskiptingu auðs og lífsgæða.
Á fundinum sem Ísland stóð fyrir með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni sögðu fulltrúar allra Norðurlandanna frá þróun kvennaathvarfanna í sínu landi. Í upphafi var sýnd fræðslumynd um kvennaathvörfin þar sem öll Norðurlöndin voru heimsótt en hún var gerð af Höllu Kristínu Einarsdóttur. Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir sagði að kvennaathvörfin væru alls 266 á Norðurlöndunum og Guðrún Jónsdóttir byrjaði á því að segja að það væri absúrd að þriðja hver kona verði fyrir ofbeldi í þeim samfélögum sem standa hvað best að vígi í heiminum. Í máli danska fulltrúans kom fram að fleiri konur stunduðu vændi og væru seldar mansali í Danmörku en á hinum Norðurlöndunum. Það vekur margar spurningar um lög og afstöðu sérstaklega til vændis. Sænski fulltrúinn sagði að það væru kvennahreyfingar sem hefðu knúið fram lagabreytingar til að herða á viðurlögum gegn ofbeldi, m.a. sænsku lögin um kvennavernd eða kvenhelgi (kvinnofrid). Finnski fulltrúinn sagði að í landi hennar segðu margir að ráðgjöf ætti að duga og að ekki væri þörf fyrir kvennaathvörf. Reynslan sýndi annað.
Aðgerðir gegn ofbeldi
Í maí 2011 undirrituðu allmörg Evrópuríki samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. Nokkur ríki, þar á meðal Tyrkland hafa þegar fullgilt samninginn og innan fjölda Evrópuríkja er unnið að fullgildingu hans. Það er ástæða til að hvetja fólk til að kynna sér þennan stórmerka samning sem nær til forvarna og margs konar ofbeldis sem stúlkur og konur eru beittar (og drengir eftir því sem við á), svo sem nauðganir, limlestingar á kynfærum, barnagiftingar og þvinguð hjónabönd. Hér á landi er nú unnið að fullgildingu samningsins. Segja má að nánast hvert einasta Evrópuríki sem tók til máls á fundi kvennanefndarinnar hafi vakið athygli á samningnum og hvatt önnur ríki heims til að gerast aðili að honum. Evrópuráðið hélt sérstakan kynningarfund þar sem nokkur Evrópuríki greindu frá því hvað þau væru að gera til að fullgilda samninginn.
Hér væri hægt að tíunda fjöldamargt sem fram kom í ræðum þeirra ríkisstjórna sem sóttu fundinn. Það var fulltrúi stærstu kvennasamtaka Egyptalands (Women‘s Council of Egypt) sem flutti ræðu lands síns og hún sárbændi þjóðir heims um aðstoð við að koma á mannaréttindum í kjölfar þeirra átaka sem urðu í landinu. Þar fara íslamistar mikinn eins og í fleiri ríkjum N-Afríku og konur sæta miklu ofbeldi ekki síst ef þær hætta sér út úr húsi. Á Ítalíu er haldin vika gegn ofbeldi í skólum landsins og þar hefur sjónum verið beint að niðurlægjandi auglýsingum sem hafa verið fjarlægðar úr opinberu rými. Í Nýja Sjálandi nær ofbeldishugtakið nú til efnahagslegs ofbeldis sem reyndar var nefnt af fleirum. Það er nokkuð sem þarf að skoða hér á landi. Í ræðu Rússlands kom fram að þar í landi hefðu menn miklar áhyggjur af rússneskum börnum sem hafa verið ættleidd, því miður oft í annarlegum tilgangi eða á fölskum forsendum. Í löndum eins og Indónesíu vinna stjórnvöld að því að kveða niður barnagiftingar en rekast þar á hefðir og menningu sem ýmsir verja af mikilli hörku. Í ræðu Noregs kom fram að þeir teldu kostnað við kynbundið ofbeldi hjá sér nema 1 milljarði dollara (um 123 milljarðar íslenskra króna). Það er gríðarleg upphæð. Í ræðu Spánar kom fram að þar er verið að setja lög um bann við áreiti og árásum á netinu. Út um alla Evrópu eru miklar umræðu um svokallaða hatursorðræðu (e. hate speech) sem fólk hefur miklar áhyggjur af enda beinist hún oft að viðkvæmum hópum. Hún er því miður áberandi hér á landi, t.d. gegn femínistum, og því fróðlegt að sjá hvernig Spánverjar ætla að taka á málum.
Að lokum skal þess getið að samkomulag náðist um lokayfirlýsingu fundarins en það tókst ekki á síðasta ári. Þrefað var langt fram á nætur um orðalag þar sem íhaldsöflin létu öllum illum látum en að lokum tókst að ljúka vinnunni.
Lokaskjalið má skoða hér: http://www.un.org/womenwatch/daw/csw/57sess.htm#ac.