- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Kveðja flutt á málþinginu „Vigdís Finnbogadóttir: Hin víðtæku áhrif“ í tilefni af veitingu heiðursdoktorsnafnbótar á heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri, 8. nóvember 2019.
Góðir samtíðarmenn – Frú Vigdís Finnbogadóttir.
– Það er vandasamt er að gera grein fyrir áhrifum Vigdísar Finnbogadóttur á jafnréttismál. Viðfangsefnið er afar stórt. Því er við hæfi að vinda sér bara beint í niðurstöðuna: Vigdís Finnbogadóttir hefur haft meiri áhrif en flestir aðrir Íslendingar á hugmyndir okkar um hvað karlar og konur gera og geta gert og þar með áhrif á hugsun okkar um jafnrétti.
Jafnrétti getur verið svo margt. Það sýnir sig með orðum okkar og gjörðum – hvernig við skipuleggjum samfélag okkar og birtist líka í þeirri stefnu sem við tökum, sem þjóðfélag.
Síðastliðin tíu ár hefur Ísland, í alþjóðlegum samanburði, staðið framar öðrum þjóðum í jafnrétti. Þegar bornar eru saman tölur um stöðu kynjanna á vinnumörkuðum, um pólitíska þátttöku, menntun og heilsu - þá stendur litla Ísland sig best. En af hverju? – ástæðuna, til að gera langa sögu stutta, finnum við í viðhorfum, hugsun og hugmyndum Íslendinga um jafnrétti.
Mig langar, í þessari stuttu kveðju, til að tala aðeins um muninn á jafnrétti sem náð er fram með lögum og jafnrétti eins og það birtist í hugmyndum okkar. Og, hvernig sá munur birtist og endurspeglast stöðugt í árangri okkar í jafnréttismálum.
Með nokkurri einföldun má segja að skipulagt jafnréttisstarf fari fram með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með vinnu stjórnvalda, – stundum sérstökum áherslum en oftast með þeim kröfum sem við gerum til þeirra sem fara með vald og taka ákvarðanir – með lögum. Í öðru lagi innan vísindasamfélagsins og meðal þeirra sem fást við fjölbreyttar hugmyndir bæði nútíðar og fortíðar. Til samanburðar og einföldunar má segja að jafnréttisstarf sé oftast annarsvegar „tæknilegt“ og hins vegar „fræðilegt“, fjalli um lagalegar skyldur annarsvegar og hugmyndir okkar hins vegar.
Til að nálgast spurningu hvernig kona á Íslandi verður forseti í upphafi níunda áratugs tuttugustu aldar – verðum við, að þessu sinni, að láta hjá líða að svara því hverjar hinar tæknilegu og lagalegu aðstæður voru á Íslandi þegar Vigdís nær kjöri. Meira aðkallandi er að lýsa því samfélagi sem hún talaði inn í – hvaða hugmyndir hún ávarpaði með framboði sínu.
Fimm árum fyrir kjör Vigdísar tóku konur á Íslandi dagskrárvaldið. Með kvennaverkfalli 1975 lögðu konur niður störf til þess að krefjast jafnra og bættra kjara á vinnumarkaði. Á þessum árum flykkjast konur síðan inná vinnumarkað – þannig að enn í dag eiga Íslendingar heimsmet í launaðri atvinnuþátttöku kvenna. Í dag, þegar Jafnréttisstofa kynnir jafnréttismál fyrir erlendum kollegum, byrjum við jafnan söguna hér. Segjum frá Kvennafrídeginum 1975 og segjum síðan stolt „then in 1980 we got the first woman as democratically elected president“
Kvennafrídagurinn var þverpólitísk aðgerð – og með áhrifum sínum undirstrikaði dagurinn að jafnréttismál snerta samfélagið allt. Barnauppeldi hefur áhrif á möguleika til vinnu. Vinna hefur áhrif á laun og völd, völd hafa á áhrif á verkaskiptingu og verkaskipting hefur áhrif á samskipti og hvernig við tölum saman.
Vigdís hefur sagt frá því að hún hafði ekkert verið að hugsa um forsetaframboð. En það voru hvatningarorð úr kvennabaráttunni sem fyrst fengu hana til að hugsa málið. Það er síðan þegar hún byrjar að fá hvatningu annars-staðar úr samfélaginu sem boltinn byrjar að rúlla. Vigdís minnist sérstaklega á það að hafa fengið hvatningu frá Íslenskum sjómönnum. Það hafi henni þótt sérstaklega vænt um.
Það er freistandi að ímynda sér, að minnsta kosti einhver hluti íslenskra sjómanna við upphaf níunda áratugarins hafi séð í framboði Vigdísar ákveðið tækifæri til þess að senda skilaboð um mikilvægi hinnar einstæðu móður. Við verðum að láta slíkar ályktanir bíða betri tíma.
En söguna þekkjum við. Vigdís háir snarpa kosningabaráttu, og eins og klókur leikstjóri stjórnar hún sviðsljósinu hvar sem hún kemur. En það vita góðir leikstjórar að það er ekki nóg að taka sér bara stöðu á sviðinu. Það þarf góðan undirbúning og skýra sýn til þess að halda sviðsljósinu. Þú þarft að hafa eitthvað að segja. Þannig varð Vigdís forseti og þannig var Vigdís sem forseti. Hún beinlínis sýndi að einstæð móðir gat gert tilkall til virðulegasta embættis þjóðarinnar og staðið sig afar vel.
Þetta eru skilaboðin sem hún sendir. Með því að gera það sem hún gerði – og gera það vel, hafði Vigdís áhrif á hvernig Íslendingar hugsa um hlutverk kynjanna og jafnrétti – áhrif á hugmyndir okkar um jafnrétti. Hún kynnti persónu sína, tók sér stöðu og það var ekki hægt að líta undan. Þannig verður kona forseti. Hún notaði þekkingu sína og skilning á samtíma og sannleik sinnar samtíðar og benti á nýja valmöguleika.
- Á ráðstefnu um jafnréttismál við síðustu aldamót kallaði frú Vigdís Finnbogadóttir eftir þátttöku karla í umræðunni um jafnréttismál. Hún spurði: Hvar eru allir karlarnir? Og spurði hvort það gæti verið að þegar aðeins konur hittast til að ræða jafnréttismál, þá náist ekki sami árangur og þegar karlarnir hafa einnig hlutverk í umræðunni. Auðvitað hafði Vigdís rétt fyrir sér. Við verðum að gera betur og fá karla til þátttöku í umræðu um jafnréttismál. Rannsóknir hafa sýnt okkur að umræða um jafnréttismál meðal karla þarf að leggja áherslu fræðslu og skilning þeirra á sannleika sinnar samtíðar. Við verðum, eins augljóst og það hljómar, að kynna það fyrir körlum hvernig þeir hafa hag af þátttöku í samfélagi jafnréttis. Að þátttaka þeirra þýði: Bætt heilsa, bætt geðheilsa, aukin þátttaka í umönnun, menntun á þeim sviðum sem þeir kjósa án áhrifa staðalmynda – aukin lífsgæði og nýir valmöguleikar.