Samfélagið okkar á mikið eftir að þróast þegar kemur að andlegri líðan. Andleg heilsa er eitthvað sem má ekki ræða, leyndarmál og eitthvað skömmustulegt.Þegar einstaklingar verða fyrir andlegum vandamálum, líður illa eða er boðið að fara eitthvað út en komast ekki er því ævinlega borið við að um einhvers konar líkamlega vanlíðan sé að ræða. Höfuðverkur eða magaverkur er vinsæl afsökun. Hefurðu nokkurn tímann heyrt einhvern segja að hann komist ekki út af því hann sé þunglyndur, líði illa eða að það sé erfitt á heimilinu?
Af hverju er svona erfitt fyrir okkur að tjá okkur um andleg málefni? Rannsóknir sýna að flest lendum við í einhvers konar sálarflækju á lífsleiðinni, samt er alltaf mun þægilegra að ræða um líkamleg vandamál en andlega vanlíðan.
Andleg vanlíðan gerir það oft að verkum að einstaklingur dregur sig til hlés, tekur ekki þátt í því sem hann vanalega gerði, talar ekki mikið og sýnir lítið frumkvæði. Margir hverjir taka lítið eftir þegar svona kemur fyrir, jafnvel nánir vinir. Það virðist vera sem svo að friðhelgi einkalífsins sé orðin svo mikil að við séum dauðhrædd við að spyrja fólk um eitthvað sem gæti móðgað það. Við viljum ekki vera að hnýsast.
En af hverju er það? Slúðurblöð heimsins seljast eins og heitar lummur og í þeim er að finna smáatriði um fræga fólkið sem teljast mjög persónuleg. Af hverju er í lagi að lesa þetta og ræða í daglegu tali, en þegar málið snýr að einhverjum sem stendur nær okkur, vinnufélaga, bekkjarsystkini eða vini, þá er þetta allt voða „privat"?
Börnin okkar eru framtíðin. Erum við að passa upp á að hvert barn fái hamingjusama æsku og góðan grunn fyrir lífið? Því miður er það ekki svo að mínu mati.
Í íslenskum lögum ríkir tilkynningarskylda, okkur er öllum skylt, almenningi jafnt sem fagaðilum, að tilkynna til Barnaverndarstofu ef grunur ríkir um ofbeldi gagnvart börnum. Barnaverndarnefnd telur að þessari skyldu sé illa framfylgt. Fólk virðist vera svo hrætt við afleiðingar þess að tilkynna. Margir afsaka sig með því að hugsa: „Kannski er ég að skilja aðstæður rangt, kannski var þetta bara eitt skipti."
Skiptir það máli? Hugsum frekar hvað ef við skildum aðstæður rétt, hvað ef þetta var eitt skipti af mörgum. Hvernig erum við að passa upp á gott samfélag með því að afneita vandamálum? Enginn er fullkominn, við þurfum öll leiðsögn í lífinu. Barnauppeldi er eitt stærsta verkefni lífsins, og leiðsögn á því sviði ætti því að vera af hinu góða. Samt sem áður viljum við ekki skipta okkur af þegar við sjáum eitthvað sem okkur finnst vera rangt.
Ef við sjáum áverka á fólki sem við erum með dags daglega, spyrjum við hvað kom fyrir? Trúum við sögum sem virðast frekar ólíklegar, tökum við eftir því þegar fólk hikar við frásögnina, dregur sig í hlé og gengur með veggjum. Tökum við kannski eftir því en hugsum ekki meira um það eða er okkur sama? Er ekki betra að reyna að ná til fólks sem er hlédrægt, og spyrjast fyrir á vinalegan hátt? Tilkynna grun okkar þegar við finnum fyrir honum. Við eigum að geta nýtt okkur nafnleynd þegar kemur að tilkynningum og óttast ekki afleiðingar gjörða okkar.
Fórnarlömb alls konar ofbeldis ættu líka að eiga auðveldara með að koma fram og leita sér hjálpar. Það virðist vera mjög inngróið í samfélagið að það að verða fyrir ofbeldi, í hvaða formi sem er, sé eitthvað skömmustulegt og aumingjaskapur. Við tjáum okkur lítið um það, það er óþægilegt umræðuefni og því er betra að hafa það bara fyrir sig. En við ættum að geta talað við þá sem eru næstir okkur, ættum að hafa auðveldan aðgang að hjálp og stuðningi.
Margir hugsa örugglega að við eigum alveg nóg með okkur sjálf og okkar eigið líf. En er það svo? Ég er ekki að tala um að við eigum að yfirheyra fólk þegar það á slæman dag, heldur að þegar við tökum eftir því að fólkið í kringum okkur er búið að breytast algjörlega, eða virðist alltaf vera að eiga slæman dag, að við gerum eitthvað í því. Reynum að ná til þessara einstaklinga og hjálpa þeim á einhvern hátt. Því jú, við viljum láta koma fram við okkur á þann hátt. Hjálpumst að við að gera heiminn að betri stað með vinsemd og umhyggju hvert fyrir öðru.
Greinin birtist á visir.is 4. desember 2012. Guðný Ósk Laxdal er nemandi í 4. H í Menntaskólanum á Akureyri og er greinin samin í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.