Aðgerðir sveitarfélaga gegn ofbeldi í nánum samböndum
Hildigunnur Ólafsdóttir skrifar
Aðgerðir sveitarfélaga gegn ofbeldi í nánum samböndum
Sveitarfélögum ber ekki skylda til að gera aðgerðaáætlanir vegna ofbeldis gegn konum í nánum samböndum. Í Akureyrarbæ er nú unnið að aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Fleiri sveitarfélög munu vafalaust fylgja á eftir og æskilegt væri að öll sveitarfélögin í landinu samþykktu svipaðar aðgerðaáætlanir. Markmið slíkra áætlana er annars vegar að koma á fót og kynna forvarnaraðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum, og hins vegar að kynna og bæta þá aðstoð sem þolendunum býðst. Staðbundnar áætlanir taka mið af því að sveitarfélög eru misstór með ólíka íbúasamsetningu, breytilega atvinnustarfsemi og misgóðan fjárhag. Í sumum sveitarfélögum geta frjáls félagasamtök verið góður liðsauki og aðstæður geta kallað á samvinnu á milli sveitarfélaga sem hefur mikinn ávinning í för með sér.
Við áætlanagerð sem þessa þarf að vera skýrt fyrir hverja áætlunin er og hverjir eiga að koma að undirbúningi hennar. Við gerð aðgerðaáætlana er hægt að styðjast við tölfræði, rannsóknir og praktíska reynslu. Eðlilegt er að byrja á því að taka saman yfirlit yfir úrræði sem þegar eru tiltæk og hvaða þjónustu þarf að koma á fót eða efla. Hafa ber í huga að stundum er nóg að kynna betur úrræði og þjónustu sem þegar eru til staðar. Hér getur líka verið heppilegt að forgangsraða verkefnum. Afla þarf upplýsinga um þekkingu og praktíska reynslu starfsfólks af að fást við ofbeldi í nánum samböndum. Ennfremur þarf að kanna hvernig samstarfi er háttað við aðra aðila sem að málinu koma, eins og heilsugæslu og lögreglu. Þá þarf að vera skýrt hver á að bera rekstrarkostnað og sjá um framkvæmd áætlunarinnar. Gott er að gera tímaáætlun og leggja síðan mat á hvernig til hefur tekist eftir nokkurn tíma.
Áætlanir af þessu tagi geta breytt viðhorfum almennings og fengið þannig pólitískt vægi. Þær eru þó hugsaðar sem verkfæri til að koma á skipulögðum umbótum og verkferlum. Kennarar og starfsfólk félagsþjónustu og barnaverndar kalla einmitt eftir slíkri leiðsögn. Aðalatriðið er að notendur fái betri og markvissari þjónustu.
Sýnt hefur verið fram á að í sveitarfélögum þar sem þjónusta við konur sem sæta ofbeldi er best, er mikil áhersla lögð á samræmda þjónustu og samvinnu stofnana sem koma að málum. Í þessum sveitarfélögum var sérstaklega gætt að hagsmunum barna. Ef sveitarfélag getur boðið heildstæða velferðarþjónustu fyrir alla þá íbúa sína sem verða fyrir ofbeldi af þessum toga, hefur mikið áunnist. Velferðarþjónusta sveitarfélaganna í þessu samhengi nær til félagsþjónustu, barnaverndar, leik- og grunnskóla.
Félagsmálaráðuneytið fól árið 2009 Rannsóknastofnun í Barna- og fjölskylduvernd að gera rannsóknir á úrræðum og viðbrögðum félagsþjónustu, barnaverndar og grunnskóla við ofbeldi í nánum samböndum. Þessar rannsóknir voru framkvæmdar af Anni G. Haugen og Guðrúnu Helgu Sederholm og í þeim komu fram athyglisverðar upplýsingar. Skráningu ofbeldismála reyndist almennt mjög ábótavant en samfelld skráning er mjög gagnleg til að fá yfirlit yfir starfsemi og fylgjast með breytingum frá einu tímabili til annars. Að auki nýtist skráning til að gera málasviðið sýnilegt svo hægt sé að meta þörfina fyrir upplýsingar og aðstoð og til að afla stuðnings við frekari aðgerðir. Athyglisvert er að börn virtust oft vera forsenda fyrir beiðni um aðstoð frá félagsþjónustu og sérstakt tillit var tekið til stöðu barna á heimili þegar ofbeldismál voru til umfjöllunar hjá félagsþjónustunni. Viðmælendur töldu að þegar leitað var aðstoðar vegna ofbeldis í nánum samböndum tengdist ofbeldið í flestum tilvikum áfengisneyslu.
Hlutverk grunnskólans og einstakra starfsmanna hans við að takast á við ofbeldi í nánum samböndum var óljóst. Fram komu óskir um að tryggja þjónustu við nemendur og auka fræðslu til kennara svo að þeir næðu að átta sig betur á einkennum þess að nemandi búi við ofbeldi gegn móður sinni. Almennt hafði starfsfólk mikinn áhuga á að bæta þekkingu sína og fá meiri fræðslu um ofbeldi gegn konum í nánum samböndum.
Í efnahagslægð er raunhæft að efla og innleiða nýjungar í þá velferðarþjónustu sem er fyrir hendi, fremur en að koma á fót nýjum stofnunum eða stofna til nýrra kostnaðarsamra úrræða. Á sama tíma er mikilvægt að auka samstarf og varðveita þá starfsemi sem gengur vel. Með því að hlúa að þeirri almennu þjónustu sem þegar er til staðar og tryggja að fagfólk fái meiri fræðslu um ofbeldi í nánum samböndum má vænta þess að betur gangi í framtíðinni að upplýsa, hindra og takast á við þann margslungna vanda sem ofbeldi í nánum samböndum er.
Hildigunnur Ólafsdóttir, afbrotafræðingur og sérfræðilegur ráðgjafi við rannsóknir félags- og tryggingamálaráðuneytisins á ofbeldi í nánum samböndum.