Af fjölskyldumyndum - Það vantar fleiri Línur

Inga Rún Sigurðardóttir skrifar

Af fjölskyldumyndum - Það vantar fleiri Línur

Það er gott og blessað þegar öll fjölskyldan getur skemmt sér yfir sömu myndinni. Myndir á borð við Leitin að Nemo, Madagaskar, Ísöld og Leikfangasaga hafa notið mikilla vinsælda. Þarna eru dýr á borð við fiska, mörgæsir, rottur og hvaðeina í stórum hlutverkum auk talandi leikfanga af ýmsum stærðum og gerðum. Fjölskylduvænna getur það ekki orðið, eða hvað? Myndirnar eru kannski fjölskylduvænar en ekki eru þær um alla fjölskylduna, kvenkynið er að stórum hluta skilið útundan. Kvenpersónur eru fáar og fæstar af þeim gera eitthvað stórkostlegt. Sumar eru líka fáklæddar eins og einhverjar af barbídúkkunum í Leikfangasögu. Kúrekastelpan í Leikfangasögu er ágæt en hún er ekki í aðalhlutverki, hún er á hliðarlínunni, í kantinum, stuðningur við aðrar persónur.

Nú finnst einhverjum þetta kannski öfgakennd lýsing, byggð á einhverri tilfinningasemi og andúð á bleikklæddum prinsessum og svartklæddum sjóræningastrákum. Svo er alls ekki. Hvatinn til skrifanna er heldur áfall yfir nýrri rannsókn Annenberg-blaðamannaháskólans við Háskólann í Suður-Karólínu, sem Newsweek ritaði grein um. Farið var í saumana á 122 fjölskyldumyndum, sem voru frumsýndar á árunum 2006 til 2009. Rannsókn Stacy Smith og Marc Choueiti leiddi í ljós að aðeins 29,2% persónanna voru konur. Og ein af fjórum kvenpersónum var sýnd í „kynþokkafullum, þröngum, eða tælandi fötum“. Kvenpersónurnar voru líka líklegri en karlpersónur til að vera fallegar og ein af hverjum fimm sýndi bert hold nálægt naflasvæði. Ein af hverjum fjórum kvenpersónum var ennfremur með svo mjótt mitti að höfundarnir fengu þá niðurstöðu að það væri „lítið pláss fyrir leg eða önnur líffæri“.

Rannsóknin var gerð fyrir Stofnun Geenu Davis um kyn í kvikmyndum, sem hefur verið að safna að sér tölfræði um konur í kvikmyndum. Davis sagði Newsweek að rannsóknir sýndu að 17% teiknara væru konur, konur mynduðu 17% af hóp í hópatriðum í fjölskyldumyndum og aðeins 17% sögumanna eru konur.

Leikkonan, sem er meðal annars þekkt fyrir hlutverk sitt í Thelma and Louise, bendir á að það sem sé á skjánum skipti máli. Það hafi áhrif á ímyndunarafl okkar og takmarki það stundum. Einhliða kvenpersónur í kvikmyndum hafi því áhrif á hvernig strákar og stelpur hugsi um stelpur.

Könnun sem var gerð árið 2003 af Kaiser-fjölskyldustofnuninni leiddi í ljós að börn að sex ára aldri eiga að minnsta kosti 20 mynddiska. Helmingur þeirra horfir á að minnsta kosti einn á dag. Davis bendir á rannsóknir sem hafa leitt í ljós að því meira sem stelpa horfir á sjónvarp, því færri möguleika finnst henni hún eiga í lífinu og því meira sem strákur horfir því meiri karlremba verður hann.

Í Annenberg-rannsókninni voru 7% leikstjóranna, 13% rithöfundanna og 20% framleiðendanna konur. Þetta er hugsanlega einhver helsta ástæðan fyrir þessari kynjaslagsíðu. Það er ekki boðlegt að kvenpersónur í fjölskyldumyndum séu alltaf á hliðarlínunni, þær eiga líka að vera í miðjunni, ekki bara að klappa fyrir strákunum og sýna á sér naflann.

Strákum finnst líka gaman að horfa á sterkar kvenpersónur. Þar er Lína langsokkur kannski besta dæmið. Teiknimyndir um ævintýri Línu eru mjög vinsælar á heimili mínu hjá tæplega þriggja ára dreng. Það mættu alveg vera fleiri Línur í heiminum.
-----------------------
Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 6. október 2010