Alþjóðleg samanburðarrannsókn sýnir að íslensk börn eiga best samskipti við feður sína.

Ársæll Arnarsson skrifar

Alþjóðleg samanburðarrannsókn sýnir að íslensk börn eiga best samskipti við feður sína.

Í skýrslu um alþjóðlegu rannsóknina „Heilsa og lífskjör skólabarna“ (Health and Behaviour of School-Aged Children) sem kom út þann 15. mars á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), kemur fram að þegar börn eru spurð um gæði samskipta sinna við feður sína tróna þau íslensku á toppnum. Í rannsókninni svöruðu 220 þúsund börn á aldrinum 11, 13 og 15 ára frá  42 löndum í Evrópu og Norður-Ameríku spurningalista um ýmsa þætti er varða heilsufar þeirra og líðan.
Í rannsókninni kom fram að íslensk ungmenni af báðum kynjum og í öllum þremur aldurshópunum mátu samskipti sín við feður jákvæðari en börn frá öllum 41 samanburðarlöndunum. Eins og í öllum öðrum löndum telja yngri börnin sig vera í jákvæðari samskiptum við feður sína en þau eldri og einnig eru strákarnir jákvæðari en stelpurnar; þannig telja 92% íslenskra stráka í sjötta bekk samskipti sín við föður vera auðveld eða mjög auðveld en 87% stelpnanna, en þegar komið er upp í tíunda bekk á það sama við um 83% stráka og 71% stelpna. 

Rannsóknin „Heilsa og lífskjör skólabarna“ hefur verið framkvæmd fjórða hvert ár af Háskólanum á Akureyri og taka um 12 þúsund íslensk börn þátt í hverri fyrirlögn. Íslenskir feður hafa lent ofarlega á listanum yfir góð samskipti hingað til en hafa aldrei áður setið á toppnum í öllum aldurshópum og hjá báðum kynjum.

Sýnt hefur verið fram á í vísindalegum rannsóknum að jákvæð tengsl milli föður og barns hafa veruleg áhrif á líðan barnsins. Auðveld samskipti við föður hafa sýnt sig hafa forvarnargildi gegn þáttum sem ógnað geta tilfinningalífi, sjálfsöryggi og líkamsmynd ungs fólks, einkum og sérílagi stúlkna. Samskipti við feður hafa samt ólík áhrif á stráka og stelpur. Ef þau eru erfið þá kemur það fram í tilfinningalegum erfiðleikum hjá stelpum, en ef þau eru góð þá draga þau úr hverskyns heilsutengdri áhættuhegðun hjá þeim. Góð samskipti feðra við drengi hafa sýnt sig draga úr neikvæðum tilfinningum eins og árásarhneigð.

Rannsóknin sýnir engu að síður að heilt yfir eru mæður í marktækt betri tengslum við börn sín en feður þannig að þrátt fyrir þessa frábæru útkomu íslensku feðrana eru þeir ekki í eins góðum samskiptum við börnin sín eins og íslensku mæðurnar sem lenda í um fjórða sæti hjá báðum kynjum í aldurshópunum þremur. Íslensku börnin eru 2-13% líklegri til að eiga í jákvæðari samskiptum við móður en föður. 

Niðurstaðan sýnir  svo ekki verður um villst að jafnrétti er allra hagur. Þarna er um að ræða fyrstu árgangana sem nutu góðs af breytingu á foreldraorlofi sem fól í sér aukinn rétt feðra. Nærtækt er að tengja þennan árangur við þær breytingar. Einnig er rétt að benda á að sífellt fleiri foreldrar sem skilja velja að skipta búsetu barnanna á milli sín og fyrri rannsóknir sýna að í þeim kringumstæðum verða feður jafnvel í enn betri samskiptum við börn sín en þeir sem eru í hjúskap. Íslenskir feður geta hins vegar bætt sig enn meira og hafa í þeim efnum afar góðar fyrirmyndir í íslenskum mæðrum.


Ársæll Arnarsson, prófessor í sálfræði við Háskólann á Akureyri.