Árið 2010 sem nú er að renna sitt skeið á enda var afar viðburðaríkt á sviði jafnréttismála. Það stafaði ekki síst af því hve mörg samtök og viðburðir áttu stórafmæli á árinu og kem ég að þeim síðar.Árið hófst á því að kynnt var glæsileg útgáfa á Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um afnám alls misréttis gegn konum. Útgefendur voru Mannréttindaskrifstofa Íslands, Jafnréttisstofa o.fl. Sáttmálinn var full frágenginn árið 1979 en staðfestur af Alþingi árið 1985, eftir mikinn þrýsting kvennahreyfinga, skömmu fyrir þriðju kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Nairobi í Kenýa. Samkvæmt honum eru íslensk stjórnvöld skuldbundin til að vinna að jafnrétti kynjanna á öllum sviðum og hafa til þess tilgreindar stofnanir og tæki svo sem lög og aðgerðaáætlanir.
Konur í sveitastjórnum
Strax í upphafi ársins hófst vinna við að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum í samræmi við tillögur nefndar sem skipuð var af Kristjáni Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Gefinn var út sérstakur bæklingur þar sem reyndar og flottar konur úr öllum flokkum hvöttu aðrar konur til að gefa kost á sér til setu í sveitarstjórnum en hlutur þeirra fyrir kosningarnar var 36%. Jafnréttisstofa stóð fyrir auglýsingaherferð í ríkissjónvarpinu og gerðir voru sex útvarpsþættir þar sem fjallað var um sveitastjórnarmálin frá ýmsum sjónarhornum. Bréf voru skrifuð til forystu stjórnmálaflokkanna og sérstakir fundir haldnir með henni, auk funda með ungliðum flokkanna og félagasamtökum. Um miðjan janúar var haldið málþing í Háskóla Íslands um kyn og völd í samstarfi Jafnréttisstofu og Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við HÍ. Þar var fjallað um hlut Íslands í stóru norrænu verkefni um kyn og völd en lokaskýrsla verkefnisins kom út í byrjun ársins. Málþingið var einnig liður í að hvetja konur til þátttöku í sveitastjórnarmálum og ýta undir umræður. Hvort sem það var nú allri þessari hvatningu að þakka, aðgerðum stjórnmálaflokkanna og kjósenda eða ástandinu í þjóðfélaginu þá varð hlutur kvenna 40% að loknum kosningunum í maí. Það er sérstök ástæða til að fagna þeim árangri á þeim erfiðu tímum sem við göngum nú í gegnum. Megin ástæðan fyrir þeim kynjamun sem enn er til staðar er sú að karlar skipuðu fyrsta sæti framboðslistanna í 75% tilfella. Fyrsta stórafmæli ársins var 1. febrúar en þá hélt Kvenfélagasamband Íslands upp á 80 ára afmæli sitt. Daginn eftir var haldið málþing í Háskóla Íslands um kyn og loftslagsbreytingar en það málefni var mjög til umræðu á loftslagsráðstefnu SÞ í Kaupmannahöfn í desember 2009. Mismunandi hegðun kynjanna og þar með möguleikar þeirra til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vekur sífellt meiri athygli. Þess má geta að baráttan gegn loftslagsbreytingum verður eitt helsta áhersluefni Finna sem fara með formennskuna í Norrænu ráðherranefndinni árið 2011. Næst var þess minnst að 100 ár voru liðin frá því að ákveðið var að gera 8. mars að alþjóðlegum baráttudegi kvenna og voru haldnar nokkrar samkomur þann dag.
Kynjakvóti samþykktur
Á árinu voru liðin 15 ár frá fjórðu kvennaráðstefnu SÞ sem haldin var i Peking árið 1995. Þar voru gerðar merkar samþykktir sem fylgt hefur verið fast eftir síðan. Árlegur fundur kvennanefndar SÞ sem haldinn var um mánaðarmótin febrúar/mars var helgaður afmælinu og var horft yfir farinn veg og fram á við frá ýmsum sjónarhornum. Norrænu þjóðirnar stóðu fyrir nokkrum viðburðum og voru allir norrænu jafnréttisráðherrarnir mættir nema sá danski, þrír karlar og ein kona. Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra flutti ræðu Íslands og tók þátt í norrænum viðburðum. Á einum fundanna þar sem fullt var út úr dyrum gátu íslensku fulltrúarnir greint frá því að búið væri að samþykkja kvóta í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga og vakti það mikinn fögnuð viðstaddra. Lögin fela í sér að ekki megi vera minna en 40% af hvoru kyni en þau ganga ekki í gildi fyrr en 2013. Frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands varð 80 ára 15. apríl og var þess minnst með margvíslegum hætti. Síðla hausts var sýnt heimildamynd í ríkissjónvarpinu um framboð hennar til forseta árið 1980 en á árinu voru einmitt liðin 30 ár frá þeim tímamótaviðburði.
Þögul þjáning
Samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn kynbundnu ofbeldi ber að halda árlegan fræðsludag fyrir almenning og sérstaka faghópa. Það hafði þó ekki komist í framkvæmd fyrr en á þessu ári þegar Jafnréttisstofu var falið að sjá um slíkan dag. Ákveðið var að beina sjónum sérstaklega að félagsmálastjórum sveitarfélaganna en félagsþjónustan kemur með margvíslegum hætti að ofbeldismálum þar sem bæði börn og fullorðnir eiga í hlut. Jafnframt var haldin ráðstefnan Þögul þjáning í samstarfi við Háskólann Akureyri þann 16. apríl. Þar voru flutt fjöldamörg erindi og sérstakur hádegisfundur fyrir starfsfólk félagsþjónustunnar. Þar var væntanleg aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar gegn kynbundnu ofbeldi kynnt en hún var samþykkt nokkru síðar. Þar með varð Akureyri fyrst sveitarfélaga til að vinna slíka áætlun. Skjáauglýsingar birtust í ríkissjónvarpinu sem vöktu mikla athygli og stundum hörð viðbrögð. Enn er það svo að margir eiga erfitt með að horfast í augu við þá staðreynd að karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem beita konur og börn ofbeldi, að ekki sé talað um aðra karla. Til stóð að sérfræðingar skrifuðu fjölda greina í blöð en Eyjafjallajökull lét svo ófriðlega að hann fékk nánast alla athygli fjölmiðla. Sveitastjórnarkosningar voru haldnar í maí eins og áður segir en síðan gekk sumarið í garð með afmæli kosningaréttar kvenna 19. júní en þann dag voru 95 ár frá því að konungur undirritaði lögin sem veittu konum 40 ára og eldri kosningarétt til Alþingis. Karlmenn sem orðnir voru 25 ára höfðu þá kosningarétt þannig að ekki fékkst jafnrétti kynjanna með þessum lögum. Það náðist með breytingum á stjórnarskránni sem gengu í gildi árið 1920 eða fyrir 90 árum. Jafnréttisstofa stóð fyrir kvennasögugöngu um gamla innbæinn á Akureyri þriðja árið í röð.
Fótbolti og afmæli Jafnréttisstofu
Heimsmeistarakeppnin í fótbolta hófst í Suður Afríku í júní og ekki var langt á hana liðið er Jafnréttisstofu tóku að berast kvartanir vegna þess mikla karlaríkis sem ríkti í umfjöllun ríkissjónvarpsins um keppnina. Þótti mörgum skjóta skökku við að tefla fram öllum þessum körlum meðan það eru íslenskar konur sem eru að standa sig vel í fótboltanum. Spurt var hvort konur hefðu ekki vit á fótbolta eða hvort þessi heimsmeistarakeppni væri einkamál karla? Jafnréttisstofa skrifaði bréf til RÚV sem ákvað að halda sínu striki. Vonandi gerir íþróttadeildin betur næst. Ekki verður betur séð en að íþróttum kvenna sé mun betur sinnt en áður, t.d. með beinum lýsingum en gera þarf úttekt á því. Það er athyglisvert að borist hafa margar kvartanir til Jafnréttisstofu vegna íþróttafélaga víða um land frá foreldrum sem finnst dætrum sínum mismunað. Þetta er mál sem sveitarfélögin þurfa að taka á enda veita þau íþróttafélögunum háa styrki og eiga auðvitað að krefjast þess að þau virði jafnrétti kynjanna. Árið 2009 voru samþykkt lög sem banna kaup á vændi og var Ísland þriðja ríkið sem leiddi slíkt í lög. Í sumar féllu fyrstu dómarnir vegna vændiskaupa og voru viðkomandi karlmenn dæmdir í 80 þús. kr. sekt og nöfnum þeirra haldið leyndum. Hvort tveggja hefur vakið spurningar um það hvort lögin hafi tilætluð áhrif þegar sektirnar eru svona lágar og nöfnum brotamanna haldið leyndum. Af hverju í ósköpunum ætti að gera það, er það eitthvað öðru vísi glæpur að kaupa sér aðgang að líkama annarrar manneskju? Í september voru 10 ár liðin frá stofnun Jafnréttisstofu sem staðsett er á Akureyri. Haldið var upp á afmælið með mjög fjölsóttri og hressilegri ráðstefnu þar sem horft var til baka og fram á veginn rétt eins og gert var í New York nokkrum mánuðum fyrr. Jafnframt var haldinn vel sóttur landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga þar sem fjöldi nýkjörinna fulltrúa kynntu sér stöðu jafnréttismála og skyldur sveitarfélaganna í þeim efnum. Ráðherraskipti urðu um þessar mundir og varð Guðbjartur Hannesson félags- og tryggingamálaráðherra.
Ráðstefnumánuðurinn mikli
Októbermánuður gekk í garð og ljóst var að mikið stóð til síðari hluta mánaðarins þegar 35 ár yrðu liðin frá kvennafrídeginum mikla 1975. Fyrst bárust þau tíðindi að Ísland væri annað árið í röð í efsta sæti lista World Economic Forum hvað varðar jafnrétti kynjanna í heiminum. Ýmsir brugðust við með því að dæsa og segja að nú væri hægt að leggja Jafnréttisstofu niður og hætta öllu jafnréttisstarfi en það er nú öðru nær. Eins og áður segir erum við bundin af alþjóðlegum sáttmálum og svo er hitt að þó að við stöndum okkur vel hvað varðar völd og áhrif, menntun og heilsugæslu þá stöndum við okkur illa hvað varðar vinnumarkaðinn. Þar er enn mikið verk að vinna sem og á öðrum sviðum. En aftur að viðburðum októbermánaðar. Fjöldamörg kvennasamtök mynduðu heildarsamtökin Skotturnar sem stóðu fyrir mikilli baráttudagskrá í Reykjavík 24. og 25. október. Aðrir aðilar ákváðu að nýta sér athyglina sem kvennafrídagurinn fengi og skipulögðu ráðstefnur af ýmsu tagi dagana á undan og eftir. Ráðstefnuhaldið hófst 22. október með norrænni ráðstefnu um nauðganir. Þar tilkynnti Ögmundur Jónasson dóms- og mannréttindamálaráðherra að hann myndi boða til sérstaks vinnufundar fagaðila og félagasamtaka um stöðu nauðgunarmála á Íslandi. Var sá fundur haldinn 12. nóvember og var mjög vel sóttur. Á degi SÞ 24. október sem bar upp á sunnudag var haldin alþjóðleg ráðstefna um kynbundið ofbeldi með þátttöku fjölda erlendra gesta. Meðal þeirra var dómsmálaráðherra Noregs Knut Storberget sem er í sérstökum karlahópi á vegum aðalframkvæmdastjóra SÞ gegn kynbundnu ofbeldi og Rashida Manjoo sem er umboðskona SÞ í ofbeldismálum. Frú Vigdís Finnbogadóttir setti ráðstefnuna en hún var verndari Skottanna. Á mánudeginum rann svo kvennafrídagurinn upp þegar konur um land allt voru hvattar til að leggja niður störf til að minna á mikilvægi vinnuframlags kvenna, efla samstöðuna og beina sjónum að hrikalegum afleiðingum kynbundins ofbeldis. Þátttaka var mjög góð víða um land, ekki síst í Reykjavík, þar sem veður var vægast sagt slæmt, slagveðursrigning og kalsi. Daginn eftir hófst svo tveggja daga ráðstefna á vegum Lagadeildar HÍ um minnihlutatilskipanir Evrópusambandsins, málefni sem væntanlega kemst fljótlega á dagskrá hér á landi. Á fimmtudegi og föstudegi var svo haldin norræn ráðstefna skipulögð af mennta- og menningarmálaráðuneytinu um ungt fólk á Norðurlöndunum þar sem aðalefnið var niðurstöður stórrar könnunar á viðhorfum ungs fólks. Þar er margt sem vinna þarf úr, t.d. fordómum stráka á aldrinum 16-19 ára gagnvart forystu kvenna á ýmsum sviðum, hugmyndum þeirra um hlutverk kvenna og karla og síðast en ekki síst gríðarleg klámneysla íslenskra stráka. Þeir horfa miklu meira á klám en jafnaldrar þeirra á hinum Norðurlöndunum, jafnvel hvern dag ef marka má svör þeirra.
16 daga átak
Dagana 25. nóvember til 10. desember var haldið árlegt alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi en það er á vegum Sameinuðu þjóðanna. Að þessu sinni var átakið helgað stöðu kvenna á átakasvæðum. Reyndar tóku utanríkisráðuneytið, UNIFEM á Íslandi og Jafnréttisstofa forskot á sæluna með því að efna til ráðstefnu á Akureyri 19. nóvember í tilefni af 10 ára afmæli samstarfs ráðuneytisins og UNIFEM í friðargæslu víða um heim í þágu kvenna. Jafnréttisstofa stóð fyrir kvikmyndasýningu í tilefni af 16 daga átakinu og farin var ljósaganga á Akureyri á mannréttindadegi SÞ 10. desember til að sýna samstöðu með baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Sama dag afhenti Jafnréttisráð árlega viðurkenningu sína og féll hún í skaut Guðrúnar Jónsdóttur talskonu Stígamóta fyrir hennar mikla starf í þágu brotaþola kynferðislegs ofbeldis. Jafnréttisstofa sinnti ýmsum verkefnum á árinu. Verkefninu Jafnrétti í skólastarfi lauk formlega snemma árs en var fylgt eftir með fjölda námskeiða fyrir kennara víða um land. Allt árið var í gangi vinna við bók fræðimanna um foreldraorlof á Norðurlöndum en Jafnréttisstofa hélt utan um verkefnið í samstarfi við Ingólf V. Gíslason og Guðnýju Eydal hjá HÍ. Bókin er í þann mund að koma út og verður kynnt snemma næsta árs. Þar með lýkur síðasta verkefninu sem Íslendingar beittu sér fyrir á formennskuári sínu í Norrænu ráðherranefndinni 2009. Unnið var að nýrri framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir næstu fjögur ár og hefur hún verið lögð fram á Alþingi. Þá er unnið að nýrri aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi en núgildandi áætlun rennur út á næsta ári. Jafnréttisstofa heldur utan um verkefnið Karlar til ábyrgðar en það felst í því að bjóða körlum upp á meðferð sem vilja hætta að beita konur ofbeldi. Fjöldi karla hefur nýtt sér þessa þjónustu. Á árinu reyndi verulega á gildandi aðgerðaáætlun gegn mansali er upp komu erfið mál sem dæmt var í á árinu og tengjast m.a. fyrrnefndum dómum fyrir kaup á vændi. Í lok nóvember var kosið til stjórnlagaþings. Nokkrar áhyggjur voru af því að konur voru aðeins þriðjungur frambjóðenda og var því lagt að Jafnréttisstofu að hvetja kjósendur til að styðja bæði konur og karla. Brugðist var við með auglýsingaherferð í sjónvarpi. Reyndin varð sú að konur urðu um 30% og þurfti ekki að grípa til jöfnunarsæta.
Upp með baráttuandann!
Loksins er verið að innleiða kynjaða hagstjórn í ríkiskerfinu, aðferð sem beitt hefur verið í fjölda ríkja um árabil en hefur vakið nokkra tortryggni hér á landi vegna vanþekkingar. Kynjuð hagstjórn gengur einfaldlega út á að skoða í hvað peningarnir fara, hvaða áhrif ákvarðanir hafa á kynin hvort um sig, hver fær hvað, hvar, hvenær og hvernig. Er kynjunum mismunað? Íþróttir eru iðulega gott dæmi um mismunun en það þarf líka að skoða skatta og útgjöld á ýmsum sviðum. Það er t.d. mjög fróðlegt að skoða útgjöld til tryggingamála og spyrja sig hvers vegna svo margar konur, aldraðar, fatlaðar og fátækar lifa á bótum frá ríkinu eða félagslegri aðstoð sveitarfélaga. Þar er á ferð kynjaskekkja sem vinna þarf bug á með ýmsum ráðum. Margt fleira mætti nefna frá starfi ársins svo sem aðstoð við einstaklinga, ráðgjöf af ýmsu tagi við stofnanir og fyrirtæki, umsagnir um lagafrumvörp, námskeiðshald, útgáfa fræðsluefnis, fundi og ráðstefnur sem starfsfólk sækir að ekki sé minnst á alþjóðlegt samstarf, t.d. í Evrópuráðinu, Evrópusambandinu og Norrænu ráðherranefndinni. Hér læt ég þó staðar numið og óska landsmönnum til sjávar og sveita árs og friðar. Starfsfólki Jafnréttisstofu þakka ég vel unnin störf. Megi næsta ár reynast okkur gjöfult og gott. Upp með baráttuandann og niður með barlóminn. Vinnum okkur saman út úr vandanum.