Árið 2013 var að vanda viðburðaríkt á sviði jafnréttismála. Árið hófst á því að hópur á vegum velferðarráðuneytisins tók til starfa til að fylgja eftir tillögum um aðgerðir til að draga úr launamun kynjanna. Sérstakur starfsmaður vinnur í velferðarráðuneytinu við að fylgja tillögunum eftir og var opnaður sérstakur vefur verkefnisins undir lok ársins.
Í byrjun árs var sprengjum kastað inn í íslenskt samfélag þegar starfsfólk Kastljóss ríkissjónvarpsins afhjúpuðu barnaníðing sem fengið hafði að leika lausum hala áratugum saman án afskipta opinberra aðila eða almennings. Konur en þó einkum karlar komu fram og sögðu sögu sína, bæði þolendur þessa ákveðna níðings en einnig annarra manna. Þá var rifjuð upp hörmuleg nauðgunarsaga ungrar konu sem varð hreinlega að flýja sitt bæjarfélag vegna viðbragða hluta samfélagsins sem fór í vörn fyrir nauðgarann. Öll þessi mál minna okkur á þá miklu þöggun sem hér hefur ríkt öldum saman um kynferðisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Afleiðingin er ómældar þjáningar brotaþola, refsileysi ofbeldismanna og skömm samfélasins. Ofbeldið endurspeglar samfélag sem ekki ver börn sín og tekur gróft ofbeldi karla gegn konum ekki nægilega alvarlega. Óhætt er að fullyrða að þær umræður sem sköpuðust í kjölfar afhjúpana RÚV vöktu marga til vitundar um ótrúlegt umfang kynferðisofbeldis gegn börnum og nauðsyn forvarna og aðgerða til að stemma stigu við því. Ríkisstjórnin brást við og setti nefnd á laggir sem fékk stuttan tíma til starfa. Hún lagði fram ítarlegar tillögur um aðgerðir sem nýttar voru í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var í apríl.
Í lok janúar var nokkrum fulltrúum frá Íslandi boðið á ráðstefnu í Finnlandi þar sem nýlegur Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og aðgerðir til að draga úr ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi var kynntur. Unnið er að innleiðingu hans um alla Evrópu, þar með talið á Íslandi en hann felur í sér margvíslegar skuldbindingar stjórnvalda varðandi forvarnir, fræðslu, vernd brotaþola og aðgerðir til að draga úr ofbeldi í nánum samböndum. Í ljósi þeirra miklu umræðna sem urðu um ofbeldismálin á árinu veitir ekki af vel skipulögðum aðgerðum og öflugum lögum.
Í febrúar reið Verslunarmannafélag Reykjavíkur (VR) á vaðið og hóf mikla auglýsingaherferð í fjölmiðlum til að vekja athygli á launamisrétti kynjanna. Jafnframt bauð VR upp á jafnlaunavottun sem unnin er í samstarfi við erlent fyrirtæki. Tilboð VR vakti nokkra athygli og umræður þar sem nýlega hafði verið gengið frá jafnlaunastaðli í samvinnu aðila vinnumarkaðarins og velferðarráðuneytisins. Enn er unnið að innleiðingu hans en það ferli er nokkuð flókið. Það verður að koma í ljós hvort boðið verður upp á mismunandi vottun fyrir fyrirtæki eða hvort vottunin verður samræmd, jafnvel sameinuð.
Marsmánuður er að öllu jöfnu viðburðaríkur. Um allan heim er haldið upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna 8. mars. Jafnréttisstofa var aðili að fundi sem Zontaklúbbarnir stóðu fyrir á Akureyri en þar var rætt um orsakir og afleiðingar „fegrunaraðgerða“ sem allmargar konur láta gera á kynfærum sínum sem og öðrum líkamshlutum. Vakti fundurinn verulega athygli og dró fram hve brýnt er að ræða slík mál. Í byrjun mars var stofnað nýtt kvenfélag Rótin, félag um málefni kvenna með áfengis og fíknivanda. Félagskonur gagnrýna þá karllægu sýn sem hefur verið ríkjandi varðandi áfengismeðferð og hafa bent á að meðferðaraðilar beini ekki nægjanlega sjónum að þeirri staðreynd hve margar konur í vímuvanda eru þolendur ofbeldis. Það er áhættuþáttur í lífi mjög margra kvenna sem þarf að vinna með.
Í New York var haldin árlegur fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna 4. – 15. mars, sá 57. í röðinni. Aðalumræðuefnið að þessu sinni var ofbeldi gegn konum sem er mjög viðkvæmt efni. Víða um heim er ofbeldi í nánum samböndum talið til einkamála sem stjórnvöld eigi ekki að skipta sér af enda hluti af aldagömlum völdum karla yfir fjölskyldunni. Ofbeldi gegn konum á átakasvæðum kom mikið við sögu enda er því markvisst beitt til að brjóta samfélög niður eða hreinlega í hefndarskyni. Refsileysi (e. impunity) er mjög algengt þegar ofbeldi gegn konum á í hlut en það sýnir að það er ekki tekið alvarlega sem glæpir og mannréttindabrot. Rétturinn til að lifa við öryggi án ofbeldis er því miður lítilsvirtur um allan heim. Að venju gaf Jafnréttisstofa út bæklinginn Konur og karlar á Íslandi 2013 bæði á ensku og íslensku en hann er samvinnuverkefni stofunnar, Hagstofu Íslands og velferðarráðuneytisins.
Í apríl hélt ofbeldisumræðan áfram. Samtökin Blátt áfram boðuðu til mjög athyglisverðrar ráðstefnu um kynferðisofbeldi í íþróttum. Enskur sérfræðingur Celia Brackenridge kom til landsins og flutti hún mjög vekjandi erindi. Það gefur auga leið að íþróttir geta verið og eru vettvangur eineltis og ofbeldis. Þær gefa þeim sem ætla sér að brjóta gegn börnum ýmis tækifæri við þjálfun, á ferðalögum sem og í öðrum samskiptum. Það kom þó einnig fram að íþróttir geta verið skjól og vörn fyrir börn sem sæta ofbeldi innan fjölskyldu. Fleira tengt ofbeldi og mannréttindabrotum gerðist í aprílmánuði. Ríkisstjórnin samþykkti nýja áætlun gegn mansali og samþykkt var fyrrnefnd aðgerðaáætlun til að kveða niður kynferðisofbeldi sem börn eru beitt.
Af öðru sem gerðist í aprílmánuði má nefna að starfshópur um karla og jafnrétti skilaði af sér en verkefnið var hluti af framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Styrkir voru veittir úr framkvæmdasjóði ríkisstjórnarinnar en þeir voru ætlaðir til verkefna á vegum ráðuneytanna. Alþjóðlegi jafnréttisskólinn (GEST) sem starfað hefur við Háskóla Íslands um árabil varð hluti af háskólum Sameinuðu þjóðanna sem verður að teljast til verulegra tíðinda. Stóra málið í apríl voru svo alþingiskosningarnar 27. apríl. Því miður urðu úrslitin þau að konum fækkaði bæði á Alþingi og í ríkisstjórn. Hlutur kvenna á Alþingi fór úr 43% í tæp 40% og við völdum tók ríkisstjórn þar sem konur eru aðeins þrjár af níu ráðherrum eða 33,3%.
Í maímánuði flutti Kristín Árnadóttir þáverandi sendiherra Íslands í Kína erindi á stórri kvennaráðstefnu sem haldin var í Hong Kong þar sem hún tíundaði árangur Íslands á sviði kynjajafnréttis. Enn bættist í ofbeldisumræðuna þegar kynnt var rannsókn á ofbeldi gegn fötluðum konum. Sú skýrsla er vægast sagt dapurleg lesning. Einnig var kynnt skýrsla um stöðu jafnréttismála í háskólum þar sem pottur er víða brotinn. Starfshópur um samræmingu fjölskyldu og atvinnu skilaði af sér skýrslu og tillögum til velferðarráðherra enn eitt verkefnið í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lauk á árinu. Undir lok mánaðarins kom nefnd frá mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna til landsins til að gera úttekt á stöðu kynjanna hér á landi. Nefndin heimsótti og ræddi við fjölmarga aðila og sendi síðan frá sér skýrslu og athugsemdir sem reyndar á eftir að ræða og vinna úr.
Í júní bar helst til tíðinda að haldið var upp á kvenréttindadaginn 19. júní svo sem vera ber. Á Akureyri var farin kvennasöguganga um Eyrina en undanfarin ár hefur verið gengið um innbæinn, elsta hluta Akureyrar. Það reyndist vera mjög margt frásagnvarvert úr sögu kvenna á Eyrinni og tók gangan mun lengri tíma en áætlaður hafði verið. Í Reykjavík buðu Kvenréttindafélagið og Kvenfélagasambandið til fundar með ávörpum og kaffiveitingum. Í fyrsta sinn var tímaritið 19. júní gefið út á rafrænu formi. Í júní kom út bæklingurinn Býrð þú við ofbeldi á vegum velferðarráðuneytisins en hann tengist þeirri merku vinnu sem á sér stað á Suðurnesjunum við að draga úr ofbeldi í nánum samböndum.
Sumarið gekk í garð með tilheyrandi leyfum en þegar vinna hófst að nýju kom nýr jafnréttisráðherra Eygló Harðardóttir í heimsókn til Jafnréttisstofu til að kynna sér stöðu mála. Fjárlaganefnd Alþingis kom einnig í heimsókn til að kynna sér starfið og urðu góðar umræður við Alþingismenn sem mættu sjást oftar norðan heiða.
Í byrjun september var haldinn árlegur fundur norrænna jafnréttisstofnana og var hann að þessu sinni hér á landi og að sjálfsögðu í Norræna húsinu. Aðalumræðuefnin voru hlutverk frjálsra félagasamtaka við að kveða niður hvers kyns mismunun og svo hatursorðræða og hatursglæpir. Síðar talda efnið verður æ áleitnara ekki síst vegna óhaminnar umræðu á netinu þar sem fólk eys úr skálum reiði, fordóma og svívirðinga og er jafnvel með hótanir um limlestingar og nauðganir. Það eru ekki síst femínistar hér á landi sem fá að finna fyrir hatursorðræðunni. Hatursglæpir valda miklum áhyggjum á Norðurlöndunum en þeir beinast einkum að fólki af erlendum uppruna, bæði börnum og fullorðnum. Í Danmörku var blaðburðardrengur af tyrknesku bergi brotinn barinn til bana, bara af því að hann var dökkur á brún og brá.
Varla var norræna fundinum lokið þegar starfsfólk Jafnréttisstofu hélt til Hvolsvallar á árlegan landsfund jafnréttisnefnda sveitarfélaga. Fundurinn var vel sóttur og komu fulltrúar víða að af landinu. Meðal efnis á fundinum var athyglisverð umfjöllun um kynin og landsbyggðirnar, vinna Rangárþings eystra að málefnum fólks af erlendum uppruna var kynnt sem og árvekniverkefnið gegn heimilisofbeldi á Suðurnesjum. Sagt var frá starfi að jafnréttismálum í einstökum sveitarfélögum, fjallað um tillögur vinnuhópsins um samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs og sagt frá því hvernig sveitarfélagið Garðabær kemur til móts við fjölskyldurnar, m.a. með sérstökum strætisvögnum sem keyra á milli grunnskóla, tónlistarskóla og íþróttahúsa. Sá akstur sparar foreldrum mörg sporin og dregur stórlega úr umferð og vinnutapi.
Í október var haldið upp á kvennafrídaginn 24. október í 38. sinn. Þann dag var tíu milljónum króna úthlutað úr jafnréttissjóðnum en hann er ætlaður til rannsókna á sviði kynjajafnréttis. Áður en að honum kom var minnt á alþjóðadag Sameinuðu þjóðanna um málefni stúlkubarnsins 11. október, sem nú var haldinn í annað sinn. Stúlkur búa við mikið misrétti víða um heim, t.d. hvað varðar aðgang að menntun, heilsugæslu, barnagiftingar og ýmislegt annað sem þær mega þola fyrir það eitt að vera kvenkyns. Enn komu ofbeldismálin við sögu því haldin var mjög fjölmenn rástefna um ofbeldi gegn fötluðu fólki. Skýrsla var birt um stöðu kvenna innan lögreglunnar og vakti hún mikla athygli. Rannsóknin sem skýrslan byggði á leiddi í ljós vanlíðan kvenna innan lögreglunnar og að þær verða fyrir töluverðri kynferðislegri áreitni og finnst þeim ekki treyst af samstarfsmönnum sínum af karlkyni. Kvenréttindafélag Íslands tók málið upp á fundi sem haldinn var í nóvember.
Þann 24. október hófst jafnréttisvika í aðdraganda jafnréttisþingsins sem haldið var 1. nóvember. Í jafnréttisvikunni birtust greinar í fjölmiðlum og ýmsir atburðir voru skipulagðir. Undir lok mánaðarins gaf Jafnréttisstofa út ítarlegt tölfræðiefni um ýmsa þætti er snerta jafnrétti kynjanna. Jafnréttisþingið var svo haldið 1. nóvember eins og áður sagði undir yfirskriftinni: Ísland best í heimi? Það var afar vel sótt og voru flutt fjölmörg erindi, einkum í vinnustofum. Fjallað var um samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs, kynskiptan vinumarkað, kynjaða hagstjórn, kyn og völd, framtíðarskipulag jafnréttismála og meðferð nauðgunarmála innan réttarkerfisins. Í nóvember var Ísland verðlaunað í Brussel af nýstofnuðum alþjóðasamtökum þingkvenna fyrir góða frammistöðu í jafnréttismálum og tók Eygló Harðardóttir við verðlaununum fyrir Íslands hönd.
Um miðjan nóvember varð framkvæmdastýra Jafnréttisstofu þess heiðurs aðnjótandi að vera boðið ásamt fjórum öðrum fulltrúum á ráðstefnu í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna í Noregi. Þetta var afar góð og fróðleg ráðstefna þar sem raddir kvenna víða að úr heiminum, ekki síst frá átakasvæðum, fengu að hljóma Þarna talaði líka Gro Harlem Brundtland fyrrverandi forsætisráðherra Noregs (sú fyrsta á Norðurlöndunum til að gegna því embætti). Hún er sko aldeilis ekki sest í helgan stein heldur sinnir málefnum eldri borgara af miklum móð.
Þann 25. nóvember hófst árlegt alþjóðlegt átak Sameinuðu þjóðanna gegn því ofbeldi sem konur eru beittar víða um heim. Upphafsdagur átaksins er sérstakur baráttudagur gegn ofbeldi en átakinu lýkur á mannréttindadegi SÞ 10. desember. Meðal atburða sem skipulagðir voru hér á landi voru ljósagöngur í Reykjavík og á Akureyri, málþing, upplestrar o.fl.
Milli fyrstu og annarrar umræðu um fjárlög íslenska ríkisins bárust þau tíðindi að framlög ríkisins til Jafnréttisstofu yrðu skorin niður um tæp 10% frá upphaflegri áætlun. Þetta er mun meiri niðurskurður en aðrar stofnanir fá sem heyra undir velferðarráðuneytið. Það er ekki hægt að túlka þessa aðgerð öðru vísi en sem pólitísk skilaboð. Jafnrétti kynjanna er greinilega ekki forgangsmál eða halda sumir stjórnmálamenn að settum markmiðum hafi verið náð? Niðurskurðurinn þýðir að framlag ríkisins dugar ekki einu sinni fyrir launum þegar búið er að draga frá himinháa leiguna á Borgum og framlag til verkefnisins Karlar til ábyrgðar sem Jafnréttisstofa heldur utan um. Niðurskurðurinn er einkar bagalegar þar sem Ísland fer með formennskuna í Norrænu ráðherranefndinni 2014 en hún leggur okkur margvíslegar skyldur á herðar, m.a. í jafnréttismálum þar sem mikið stendur til. Samstarf Norðurlandanna á sviði kynjajafnréttis verður 40 ára og veður m.a. haldin afmælisráðstefna, auk annarra funda og ráðstefna. Það kemur í hlut Íslands að stýra stefnumótun fyrir næstu fjögur ár sem og að undirbúa Peking+20 árið 2015. Það ár veðrur haldinn stórfundur í New York eins og gert hefur verið á afmælum Pekingsáttmálans. Það má einnig minna á í þessu samhengi að Ísland er skuldbundið til að sinna jafnrétti kynjanna sómasamlega samkvæmt CEDAW samningnum (samningur SÞ um afnám alls misréttis gegn konum), Pekingáætluninni, samþykktum Evrópuráðsins og EES samningnum. Skipta skyldur okkar í samfélagi þjóðanna ekki máli lengur eða getur verið að þingmenn séu ekki upplýstir um þær?
Að lokum þakka ég starfsfólki Jafnréttisstofu fyrir vel unnin störf á síðasta ári og óska jafnréttissinnum árangursríks árs. Samstarfsfólki okkar og vinum um land allt sendi ég góðar kveðjur. Vonandi rís landið fljótt að nýju þannig að okkur takist að halda stöðu okkar sem eitt þeirra ríkja sem virða jafnrétti kynjanna hvað best og mest og verði áfram fyrirmynd og brautryðjandi á sviði kynjajafnréttis. Spennandi verkefni eru framundan, m.a. vegna stórafmæla en einnig mikilvægra málefna sem bíða úrlausna. Það er ekki í boði að leggja árar í bát heldur þarf að herða róðurinn.