Besta blandan: Fjölbreytt atvinnulíf og öflugt velferðarkerfi

Ráðstefna um framtíð vinnumarkaðarins

Ráðstefna um framtíð vinnumarkaðarins

Um þessar mundir fara Norðmenn með formensku í Norrænu ráðherranefndinni. Það stendur mikið til, þar á meðal á sviði jafnréttismála. Nýlega var haldin ráðstefna undir yfirskriftinni Framtíð vinnumarkaðarins þar sem staðan á vinnumarkaði var skoðuð og horft til framtíðar. Ég ætla hér á eftir að tæpa á ýmsu því sem fram kom en væntanlega verður hægt að nálgast erindin fljótlega á netinu.

Fyrst ber að nefna að það vakti athygli ráðstefnugesta að norski jafnréttisráðherrann Solveig Horne sat alla ráðstefnuna og flutti stuttar ræður á undan hverjum dagskrárlið. Það er óvenjulegt að ráðherrar gefi sér tíma til að sitja allan tímann. 


Horfum á alla myndina

Eitt af fyrstu erindunum flutti Lynn Roseberry en hún var áður lektor við Copenhagen Business School. Árið 2014 gaf hún út bókina Bridging the Gender Gap þar sem hún fór í gegnum ýmsar goðsagnir um kynin á vinnumarkaði. Lynn Roseberry sagði að það væri einkum tvennt sem hún vildi beina sjónum að, launajafnrétti og jafnrétti í og við stjórnun fyrirtækja. Hún sagði að þær aðferðir sem við erum að nota við að ýta undir kynjajafnrétti á vinnumarkaði væru ekki að virka nægilega vel. Það væri við ramman reip að draga, t.d. hefði könnun Yale háskóla sýnt að bara nöfn fólks (kvenkyns og karlkyns) hefðu mikil áhrif. Fólk er svo fyrirfram mótað að ómeðvitað dregur það fólk í dilka eftir kyni. Þetta höfum við nýlega heyrt hér á landi hvað varðar fólk af erlendum uppruna. Útlenskt nafn og viðkomandi á ekki séns. Til að gera langa sögu stutta þá sagði Lynn að við þyrftum að horfa á alla myndina. Byrja á uppeldi barna, endurmennta kennara, skoða námsefni i skólum, efla jafnréttisráðgjöf í skólum, stunda rannsóknir og endurskoða hvernig fólk er ráðið í störf. Svo væri það félagslega hliðin sem skipti miklu máli. Fæðingarorlof, lífeyrisréttindi, skattar, leik- og grunnskólar, allt er þetta mikilvægt við að jafna stöðu kynjanna. Hún sagði að það væri eftir miklu að slægjast fyrir vinnumarkaðinn. Meiri fjölbreytni, meiri nýsköpun og betri nýting á mannauðnum þýðir öflugra atvinnulíf.

Karlar með bakhjarla

Sigtona Halrynjo kynnti rannsókn þeirra Mari Teigen á 200 stærstu fyrirtækjunum í Noregi. Þær smíðuðu mælitæki (barometer) sem þær notuðu við að skoða stjórnir og stjórnendur fyrirtæja og báru síðan niðurstöður að hluta til saman við Bandaríkin. Það er afar fróðlegt að skoða útkomuna sem þær birtu í bókinni Ulik likestilling i arbejdslivet (Gyldendal 2016). Niðurstöðurnar eru vægast sagt hörmulegar svo lítill er hlutur kvenna. Það er eingöngu í  fyrirtækjum sem heyra undir kvótalögin sem hlutur kvenna í stjórnum er viðunandi.  Noregur og Ísland skera sig algjörlega úr hvað varðar slík fyrirtæki vegna reglna um kvóta. Peningar eru vald eins og við vitum og það eru oftast karlar sem halda um pyngjuna, deila og drottna á vinnumarkaðnum. Sigtona sagði að meðal forréttinda karla væri að þeir hefðu flestir „bakkemannskap“ eða bakhjarla/baksveit heima við sem gerðu þeim kleift að vera á toppnum.

Í umræðum á eftir þessum erindum var spurt hver bæri ábyrgð á kynjajafnréttinu. Eru það stjórnmálamenn eða forystufólk í atvinnulífinu eða báðir þessir hópar? Það er verið að vinna að nýjum jafnréttislögum í Noregi og þar á sér stað umræða um efni þeirra.

Miklar breytingar framundan

Mari Teigen spurði í sínu erindi hvar þröskuldarnir  væru sem kæmu í veg fyrir jafnrétti á vinnumarkaði. Þeir eru greinilega í ákveðnum atvinnugreinum þar sem annað kynið er alls ráðandi, t.d. í hjúkrun, kennslu, ákveðnum iðngreinum o.fl. Þetta er umræða sem við þekkjum vel. Hún benti á að konur hafa farið inn á svið sem áður voru einokuð af körlum en lítið er um að karlar fari inn á svið kvenna. Hún spurði hvort það væri raunverulegur pólitískur vilji til að breyta þessu. Þá velti hún vöngum yfir þeim breytingum sem væru framundan á vinnumarkaði. Hún benti á að tæknin er taka yfir æ fleiri störf einkum í ýmis konar iðnaði. Róbótum fjölgar stöðugt og koma einkum við sögu í störfum sem karlar hafa sinnt til þessa. Hvaða áhrif munu þessar breytingar hafa á ímyndi og kynskiptingu starfa? Þá er það tölvuvæðingin sem gerir störf mun sveigjanlegri en áður. Það er hægt að vinna þau heima og heiman. Á því máli eru þó tvær hliðar. Annars vegar sú að fólk getur betur samræmt vinnu og einkalíf, hins vegar hættan á að fólk verður í vinnunni nánast allan sólarhringinn. Mari Teigen sagði að stuðningur við kynjajafnrétti á vinnumarkaði hefði aukist mikið undanfarin ár þar sem fólk gerði sér æ betur grein fyrir því hve mikill ávinningurinn er. En, það blása líka aðrir vindar víða um heim sem vilja þrengja að réttindum kvenna, sbr. fréttir frá Póllandi, Rússlandi og USA (innskot mitt). Teigen undirstrikaði hve öflug fjölskyldustefna væri mikilvæg fyrir vel skipulagt atvinnulíf. Breytingar sem snerta fjölskyldur geta ýmis aukið eða dregið úr jafnrétti kynjanna.

Karlar í umönnun

Seinni daginn sótti undirrituð vinnustofu um aðgerðir til að brjóta upp kynskiptan vinnumarkað. Þar sagði doktorsnemi í kjarneðlisfræði frá sögu sinni og reynslu, sænskur leikskólakennari fjallaði um mikilvægi jafnréttisuppeldis og sagt var frá stórmerkilegu verkefni sem kallast Menn i helse, eða karlar í umönnunarstörfum (http://mennihelse.no/). Verkefnið snýst um að fá karla til að söðla um og fara nýjar leiðir. Markhópurinn er karlar á aldrinum 25-55 ára. Þarna er því um endurmenntun að ræða. Sýnd voru myndbönd sem sýndu karla í vinnu með fötluðu fólki, inni á sjúkrahúsum og á dvalarheimilum fyrir gamla fólkið. Bent var á að karlar mæta stundum andstöðu þegar þeir reyna að fara inn í hefðbundnar kvennagreinar og því þarf að breyta. Einnig kom fram að Norðmönnum hefur gengið langbest Norðurlandaþjóðanna að fjölga körlum í röðum leikskólakennara. Við þurfum svo sannarlega að  kynna okkur hvernig Norðmenn hafa farið að.

Í annarri málstofu, sem ég sóttir ekki, var fjallað um stöðu kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði. Þar var staðan greind en einnig sagðar sigursögur af konum sem byggt hafa upp frábær  fyrirtæki. Meðal annars sagði  hin íslenska Fida Abu Libdeh frá reynslu sinni.

Launajafnrétti árið 2086?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir umdæmisstjóri UN Women í Evrópu og Mið-Asíu flutti erindi þar sem hún fór yfir stöðu jafnréttismála á heimsvísu. Hún minnti á að ekkert ríki í heiminum tryggir kynjajafnrétti á vinnumarkaði. Þvert á móti búa konur við mikið misrétti, lægri laun, hlutastörf og valdaleysi. Þau störf sem eru framhald af þeirri vinnu sem áður var unnin á heimilum eru yfirleitt illa launuð. Atvinnuþátttaka kvenna í launuðum störfum er minni en karla og mun fleiri konur búa við atvinnuleysi, einkum ungar konur. Að meðaltali hafa konur 77% af launum karla í heiminum. Með sama áframhaldi næst launajafnrétti árið 2086. Þegar lögð er saman launuð og ólaunuð vinna snýst dæmið við og konur vinna mun meira en karlar. Ingibjörg Sólrún minnti á hve víða skortir á félagslega þjónustu og stuðning enda búa mjög margar konur við mikla fátækt. Hún lagði áherslu á hve menntun væri mikilvæg en hún tryggði þó ekki kynjajafnrétti. Hún tók dæmi af Tyrklandi þar sem mun fleiri konur hafa háskólamenntun en karlar en atvinnuþátttaka kvenna þar í landi er sú minnsta innan OECD. Menntuðu konurnar sitja heima. Ingibjörg Sólrún sagði að það væri nauðsynlegt að endurskoða allar hagfræðistefnur, það yrði að hugsa atvinnulífið þannig að sköpuð væru störf bæði fyrir konur og karla. Það er til mikils að vinna að auka atvinnuþátttöku kvenna. Fjárfesting í innviðum eins og umönnunarkerfinu skilar samfélögnum miklu eins og við vitum svo vel hér á landi. Ef takast á að skapa jafnrétti kynjanna heima og heiman þarf að endurskipuleggja þá ólaunuðu vinnu sem konur vinna á heimilunum og jafna henni á fleiri herðar.

Undir lokin var umræða um það hvernig Norðmenn gætu stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku kvenna á heimsvísu. Svörin voru margvísleg allt frá því að auka þróunarsamvinnu með áherslu á bætta stöðu kvenna yfir í það að vera góð fyrirmynd. Það er alveg ljóst að þótt Norðurlöndin standi sig einna best við að tryggja jafnrétti kynjanna er mikið verk að vinna við að jafna kjörin, endurmeta störfin, gjörbreyta forystu í atvinnulífinu, beina kynjagleraugum að hagfræðinni og efnahagskerfinu, efla velferðarþjónustu og síðast en ekki síst að jafna byrðarnar inni á heimilunum. Allt hangir þetta saman enda eru fjölbreytt atvinnulíf og öflugt velferðarkerfi líklegust til að skapa bestu samfélögin og eru besta blandan.

Kristín Ástgeirsdóttir.