- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þann 21. júlí sl. var maðurinn sakfelldur og hlaut hann sex mánaða dóm fyrir blygðunarsemisbrot (brot gegn 209. gr. hegningarlaganna) þrátt fyrir að konan hefði fyrst og fremst kært manninn fyrir nauðgun, en blygðunarsemisbrot til vara. Þungamiðjan í nauðgun er brot gegn kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti brotaþolans, en það gefur augaleið að brotaþoli sem er blekktur til kynmaka er sviptur tækifærinu til að nýta sjálfsákvörðunarrétt sinn sem skyldi. Kynmök án upplýsts samþykkis beggja aðila hljóta að teljast mun alvarlegra mál en blygðunarsemisbrot. Staðan hefur þó ekki ávallt verið svona.
Fram til vorsins 2007 voru ákvæði í íslenskum lögum sem verndaði fólk gegn kynferðisbrotum sem framin voru undir formerkjum samskonar svika og í áðurnefndu máli. Þetta ákvæði var að finna í 199. gr. hegningarlaganna, en refsinæmi háttseminnar byggðist á því að samþykki til kynmakanna er ekki fengið með eðlilegum hætti heldur með blekkingum. Hámarksrefsing við þessu broti var sex ára fangelsi. Tveir dómar hafa fallið hérlendis þar sem reyndi á þetta ákvæði. Í báðum málunum, H 1943:167 og H 1996:3030, höfðu ákærðu samræði við konur, sem þeir komu að þar sem þær lágu sofandi í rúmi, önnur þeirra með unnusta sinn sér við hlið, en hin í eigin hjónarúmi. Höfðu ákærðu samræði við konurnar, sem héldu til að byrja með að þær væru að hafa samræði við maka sína. Málið frá því í maí síðastliðnum er því ekki einsdæmi og eflaust eru brot af þessu tagi framin reglulega án þess að þau komi til kasta yfirvalda. Hinsvegar kom í ljós að alvarlegur missir er að blekkingarákvæðinu úr kynferðisbrotakafla hegningarlaganna.
Vorið 2007 voru breytingar á kynferðisbrotakaflanum samþykktar á Alþingi. Í drögum að nýja frumvarpinu segir um áðurnefnt blekkingarákvæði: Svo sem sjá má er ákvæði þetta mjög sérkennilegt og ekki mjög raunhæft að á það reyni. Rökstuðningurinn fyrir að afnema blekkingarákvæðið var að helst gæti reynt á það ef brotaþolinn væri geðsjúkur, þroskaheftur eða sofandi. Þá myndi 2. málsgrein 194. greinar hegningarlaganna fullnægja refsinæmisskilyrðum, en þar segir að það teljist einnig nauðgun að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Hámarksrefsing við slíku nauðgunarbroti er sextán ára fangelsisvist, en refsing við blygðunarsemisbroti er sex mánaða fangelsisvist ef brotið er smávægilegt, sem það virðist af einhverjum ástæðum hafa talist í umræddu máli. Dómararnir féllust ekki á að brotið félli undir 2. málsgrein 194. greinar, og var þetta að vissu leyti prófmál á nýju lögin. Í ljós kom að þau vernda ekki brotaþola sem blekktir eru með áðurnefndum hætti. Brottnám blekkingarákvæðisins hjó skarð í réttarstöðu brotaþola sem verða fyrir jafn mannskemmandi lífsreynslu og áðurnefnd kona. Þótt yfirvöldum hafi þótt bæði sérkennilegt og óraunhæft að fólk geti verið blekkt til kynmaka, blasir við að slíkt á sér þó stað. Mikilvægt er að það endurspeglist í lagabálkinum, svo hægt sé að dæma fyrir slík brot með viðeigandi hætti.