- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri langþráðan kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Síðan þá hefur 19. júní verið þekktur sem Kvenréttindadagur okkar Íslendinga. Í dag þykir barátta kvenna til kosningaréttar frekar sjálfsögð, við gleymum oft að þótt hún líti út fyrir að vera sjálfsögð í dag þá var hún það alls ekki árið 1915. Árið 1894 var Hið íslenska kvenfélag stofnað og árið 1895 söfnuðu þær konur sem stóðu á bak við félagið 2000 undirskriftum til að skora á Alþingi að veita konum kosningarétt. Fyrsta krafan um jafnan kosningarétt milli kynjanna kom árið 1895, 20 árum seinna fengu konur 40 ára og eldri kosningarétt og það var ekki fyrr en árið 1920 sem konur fengu jafnan kosningarétt og karlar. Það tók 25 ár að fá jafnan kosningarétt milli kynjanna, 25 ár þar sem konur börðust fyrir því að hafa jafn mikið að segja um það hverjir stjórnuðu landinu okkar.
Þann 17. júní tók ég á móti jafnréttisverðlaunum Akureyrarbæjar vegna jafnréttisstarfa minna hérlendis. Ég hef verið mjög opin með skoðanir mínar og er og mun jafnréttisbaráttan vera mér mjög mikilvæg. Í samræðum mínum við fólk um af hverju jafnréttisbarátta kvenna sé ennþá mikilvæg í dag? erum við ekki bara búin að ná jafnrétti? eða a.m.k. komin sæmilega nógu langt, ég meina við erum best í heimi er það ekki?
Jú, við höfum og erum að standa okkur vel þegar kemur að jafnréttisbaráttu kynjanna en við erum engan veginn búin að ná markmiðinu sem hlýtur að vera fullkomið kynjajafnrétti. Ekkert land í öllum heiminum getur sagt sig hafa náð fullu kynjajafnrétti. Við höfum náð langt en við getum, eigum og þurfum að ná lengra.
Sumum finnst baráttumál femínista öfgakennd í dag. Þeim er ég ósammála því aldrei er hægt að fara út í öfgar þegar kemur að jafnrétti og alltaf er hægt að bæta sig. Við búum ennþá við kynjaða fordóma í íslensku samfélagi, óútskýranlegur launamismunur ríkir ennþá, eitruð karlmennska, heimilisofbeldi og kynbundið ofbeldi. Þessi listi er ekki tæmandi en þetta eru sum af þeim stærstu vandamálum sem femínistar berjast fyrir í dag. Ein af helstu áskorunum okkar í dag er að mínu mati er þetta óskrifaða. Við þurfum að endurskrifa það, þ.e.a.s. þær samfélagslegu „reglur“ og skoðanir sem við ölumst upp við og búa í undirmeðvitund okkar. Ég er að tala um allar þær „reglur“ sem segja okkur hvað konur og karlar „mega“ og „mega ekki“ segja, gera, nota og svo framvegis, út frá kyni.
Við erum öll einstök, virðum hvert annað, fögnum fjölbreytileikanum og styðjum jafnrétti. Þetta er ekki eins og kökusneið þar sem ef einhver fær sér stærri sneið þá minnki þín. Í jafnréttissinnuðu samfélagi græða allir.
Áður en þú dettur í gírinn að gagnrýna eða segja jafnréttisbaráttuna tilgangslausa, taktu þér þá smá stund og lestu þér til um málefnið. Því alveg eins og árið 1895 þá virðast þetta kannski ekki vera aðstæður sem nauðsynlegt er að breyta. Ég trúi því að eftir einhver ár munum við líta til baka og gagnrýna okkur sjálf fyrir það að hafa ekki tekið okkur til og breytt okkar samfélagi til hins betra fyrr. Ekki taka ákvörðun áður en þú hefur kynnt þér málið og við skulum læra af sögunni og ekki leyfa 25 árum að líða áður en næsta stóra breyting á sér stað. Breytum þessu núna, það er enginn tími jafn mikilvægur og nútíminn.
- Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir