Er fyndið að nauðga karlmönnum?

Jóhannes Sigurjónsson skrifar

Er fyndið að nauðga karlmönnum?

Ung manneskja úr Reykjavík, afar pasturslítil, kynferðislega reynslugrönn, viljalaus og vön að láta að stjórn annarra, ræður sig til starfa á veitinga- og gististað úti á landi. Þar ræður ríkjum drykkfelldur, miðaldra maður, stór, mikill og filefldur og líkast til þjakaður af kynlífssvelti. Veitingamaðurinn voðalegi á landsbyggðinni, misnotar sér aðstöðu sína sem yfirmaður ungu manneskjunnar úr borginni, neytir aflsmunar og nauðgar henni ítrekað, jafnvel daglega. Hið pasturslitla og reynslulausa fórnarlamb er hvorki andlega né líkamlega fært um að verjast þessum árásum og verður að láta þær yfir sig ganga, þjáð af ótta við að verða rekið ef það lætur ekki að vilja yfirmannsins og að auki ófært um að verja sig vegna mismunar á þungavigt.

Þarna er sem sé ekki einungis um kynferðislega misnotkun að ræða, heldur einfaldlega glæpsamlegar og hroðalega nauðganir.

Misnotkunargrín

Nei, sem betur fer var þetta ekki lýsing á raunverulegum atburðum, nóg er þó samt af slíkum á Íslandi. Hér var einungis verið að lýsa atburðum sem eiga sér stað í sjónvarpsþáttaröð sem nú er sýnd hérlendis. Og væri ekki í frásögur færandi, ef um væri að ræða spennuþáttaröð, glæpaþætti eða ömurlega og raunsæja skandínavíska þáttaröð um dekkri hliðar samfélagsins.

En svo er ekki. Hér er verið að lýsa atburðarás í vinsælustu og best heppnuðu gamanþáttaröð í sögu sjónvarps á Íslandi, Næturvaktin/Dagvaktin. Sá sem þetta ritar hló eins og þjóðin áhorfandi á þættina. En fékk eftir þá smávegis bakþanka. Af því að hér var verið að grínast og gantast með augljósa kynferðislega misnotkun og nauðganir.

Og maður hefur beðið eftir því að femínistar og aðrir sem láta sig kynferðislega misnotkun varða, láti í sér heyra með harðvítugum mótmælum og jafnvel ákærum á framleiðendur og höfunda Dagvaktarinnar, fyrir að reyna að gera kynferðislega misnotkun og nauðganir að skemmtiefni. Því staðreyndin er sú að menn og konur hafa nú kært af minna tilefni. En enginn hefur andmælt.

Ólafía nauðgaði Pétri!

Og hvernig í ósköpunum getur staðið á því? Það er í raun augljóst. Af því einfaldlega að vesalings manneskjan úr Reykjavík er karlmaður og vonda, drykkfellda, þungavigtarmanneskjan, stjórnandi hótelsins úti á landi, er kona.

Ólafía Hrönn Jónsdóttir nauðgar sem sé Pétri Jóhanni Sigfússyni ítrekað í Dagvaktinni, og þykir voða fyndið. Það er sem sé fyndið þegar kona nauðgar karlmanni, en vissulega hræðilegur harmleikur þegar karlmaður nauðgar konu, að minnsta kosti ef marka má algjör núllviðbrögð bloggheima og annarra fjölmiðla við nauðguninni í Dagvaktinni.

Nú er ég ekki að segja að þeir sem semja Dagvaktina telji að nauðgun sé fyndin, þetta eru það feykigreindir menn. Jón Gnarr og félagar hafa örugglega gert sér grein fyrir að þeir voru að framleiða nauðgunaratriði, með öfugum formerkjum, þ.e. kona að nauðga karli. Og þeir hafa ugglaust með þessu verið að reyna á þanþol og skilning áhorfenda, kanna hvort þeir áttuðu sig á því hvað var í gangi.

En það er augljóst að það gerðum við ekki. Okkur fannst þessi nauðgun feykilega fyndin. Af því að kona var að nauðga karli. En ef við snúum við kynjunum í þessu samhengi. Ef Dagvaktin hefði byrjað á eftirfarandi söguþræði:

Ung pasturslítil og viljaveik stúlka úr Reykjvík, líkast til hrein mey og vön að láta að stjórn, ræður sig til starfa hjá gisti- og veitingastað úti á landi. Þar ræður ríkjum drykkfelldur og graður 100 kílóa rumur, sem misnotar aðstöðu sína sem stjórnandi, neytir afls- og þyngdarmunar og nauðgar stúlkunni ítrekað, sem reynir af veikum mætti að verjast en án árangurs.

Ef þetta hefði verið senan í Dagvaktinni, þá hefði allt orðið vitlaust í íslensku þjóðfélagi og alveg klárt að aðstandendur þáttarins hefðu verið kærðir í bak og fyrir, fyrir að gera nauðganir og kynferðislega misnotkun að skemmtiefni.

En það hefur ekki heyrst múkk, japl, jaml eða fuður í nokkrum manni eða konu, vegna þessara þátta, sem mér finnst sjálfum þeir fyndnustu í sögu sjónvarps á Íslandi. Af því, að sjálfsögðu, að nauðgun á karlmönnum þykir gamanmál á Íslandi.

Er það stórmál þegar kvenmaður (sjálfviljugur) kemur fram í bikini sitjandi á bílhúddi í sjónvarspauglýsingu, en ekkert mál þegar karlmanni er nauðgað í íslenskum grínþætti?

Spyr sá sem ekki veit.
 
Og við vísum þessu augljósa kynferðisglæpamáli til ríkissaksóknara og Jafnréttisráðs.  


 
(Pistillinn birtist fyrst í héraðsfréttablaðinu Skarpi á Húsavík)