Ingólfur Á. Jóhannesson-Katrín B. Ríkarðsdóttir skrifar
Er hægt að bjóða kynjakerfinu birginn?
Reynsla átta kvenna af smíðum og tölvunarfræðiKynbundið náms- og starfsval hefur umtalsverð áhrif á uppbyggingu og þróun samfélaga. Með því er lagður grunnur að kynjaskiptingu samfélagsins sem á stóran þátt í að viðhalda kerfisbundnu misræmi í aðstöðu kynjanna á vinnumarkaði þar sem störf kvenna njóta oftast nær minni virðingar, valda, áhrifa og launa en störf karla.Enda þótt tölur um námsval séu tiltækar virðist tiltölulega lítið hafa verið hugað að stöðu kynjanna í náminu sjálfu og því hvort ef til vill sé ástæða til að styðja sérstaklega við konur sem velja sér nám á hefðbundnu karlasviði, og karla sem velja sér nám á hefðbundnu kvennasviði.
Í grein Katrínar Bjargar og Ingólfs Ásgeirs er fjallað um birtingarmyndir kynjakerfisins í reynslu kvenna af námi og störfum í húsasmíði og tölvunarfræði. Tekin voru viðtöl við átta konur í greinunum tveimur. Allar höfðu þær lokið námi á síðastliðnum sex árum áður en viðtölin voru tekin. Húsasmiðirnir höfðu stundað nám í þremur framhaldsskólum og tölvunarfræðingarnir í þremur háskólum á ólíkum stöðum á landinu. Í greininni er leitast við að svara því hvort kynjakerfið í formi útilokunar, aðgreiningar og undirskipunar kvenna komi fram í reynslu þeirra, hvaða teikn séu skýrust og hvort kynjakerfið leiti nýrra leiða til að halda jafnvægi þegar tilraunir eru gerðar til að vinna í trássi við það. Meginniðurstaðan er sú að þótt einstaka konum takist að bjóða kynjakerfinu birginn dugi það skammt þar sem birtingarmyndir kynjakerfisins eru ekki persónuleg sérviska heldur kerfislægt fyrirbæri. Margt af þessu var ekki augljóst fyrr en skyggnst var undir yfirborðið og hlustað á raddir kvennanna.
Þá kom í ljós að ýmsir þættir kynbundinnar menningar í reynslu þeirra eru mjög lúmskir og í flóknu samspili við launavinnu, heimili, kynverund, ofbeldi og þátt ríkisins. Þær niðurstöður eru í samræmi við kynjakerfiskenningu breska félagsfræðingsins Sylvia Walby.
Katrín er menntunarfræðingur og framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar hjá Akureyrarbæ, Ingólfur er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.
Greinina má nálgast í Netlu, veftímariti um uppeldi og menntun þar sem hún birtist þann 16. október 2012.
Í veftímaritinu er að finna fleiri greinar um jafnrétti og skólastarf.